Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/40274
Fjármögnunarumhverfi fyrirtækja á landsbyggðinni var til skoðunar í rannsókn sem byggðist á eigindlegri aðferðafræði. Viðtöl voru tekin við fólk í rekstri fyrirtækja og veitingu útlána á tveimur svæðum á Norðurlandi.
Niðurstöður bentu ekki til þess að erfiðleikar í fjármögnun fyrirtækja á landsbyggðinni mætti skrifa beint á staðsetningu þeirra heldur mætti rekja það til hefðbundna sjónarmiða rekstrar. Þá mátti greina mikinn mun á milli rannsóknarsvæðanna sem felst í því að ákveðin hringrás hefði myndast á Eyjafjarðarsvæðinu þar sem atvinnutækifæri hefðu rýrnað og þróun fasteignaverðs ekki haldið í við önnur svæði. Lánveitingar á grundvelli veðtöku væru þannig ekki jafn álitlegar á svæðinu og þar sem þróunin hefur verið önnur. Einhver teikn mátti greina að einstaklingsframtak væri að skapa blómlegra fjármögnunarumhverfi. Skoða þarf frekar hvernig rekstrarumhverfi fyrirtækja mótast af staðsetningu og hvernig rekstrarumhverfi eru mismunandi á milli svæða landsins.
Niðurstöður rannsóknarinnar samræmast kenningunni um goggunarröð fjármagns. Þó kenningin reki röðunina til kostnaðar fjármagnsins má greina í rannsókninni að lántakendur séu frekar að líta til stjórnartauma rekstursins. Skuldahlutfall félaga var þannig að ráðast af getu félaga og eigenda þeirra til að fjármagna rekstur sjálf. Niðurstöður rannsóknar samræmdust ekki valkostakenningunni eða kenningunni um tímasetningu markaðsaðgerða félaga. Niðurstöður voru í takt við önnur rit og rannsóknir um viðfangsefnið.
Viðskiptavinir sparisjóða voru jákvæðari í garð aðgengi að fjármagni og samskiptum við fjármálastofnanir heldur en þeir sem voru einungis í viðskiptum við banka. Fyrirtækjaeigendur jafnt og fjármagnsveitendur töldu rekstrarform lánastofnana þó ekki hafa áhrif á þessa þætti. Eyjafjarðarsvæðið var varkárt í garð smærri lánastofnana og varaði við frændhygli. Niðurstöður bentu til þess að vænlegasta fjármögnunarumhverfið væri þar sem úrval fjármagnsveitenda væri fjölbreytt og samkeppni meiri. Aðkoma hins opinbera væri helst að tryggja gjöfult rekstrarumhverfi með innviðafjárfestingum og beitingu opinberra gjalda.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
!_Nóg til - Fjármögnun fyrirtækja á landsbyggðinni.pdf | 971,39 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman_Yfirlýsing um meðferð lokaverkefnis.pdf | 866,08 kB | Lokaður | Yfirlýsing |