Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/4030
Jafnar tilheyra flokki byrkninga og vaxa yfir 500 tegundir víðsvegar í heiminum. Á Íslandi vaxa fimm tegundir jafna: lyngjafni (Lycopodium annotinum), skollafingur (Huperzia selago), litunarjafni (Diphasiastrum alpinum), mosajafni (Selaginella selaginoides) og burstajafni (Lycopodium clavatum). Það sem gerir jafna mjög sérstaka er að þeir framleiða mikið magn af svokölluðum lýkópódíum alkalóíðum. Lýkópódíum alkalóíðar hafa verið notaðir í alþýðulækningum og til að slá á einkenni Alzheimerssjúkdómsins en áhrif þeirra á ónæmiskerfið hafa lítið verið rannsökuð. Angafrumur er öflugustu sýnifrumurnar í ónæmiskerfinu og eru þær mikilvægur hlekkur á milli ósérhæfða og sérhæfða ónæmiskerfisins. Þær sjá um að taka upp vaka og sýna óreyndum T frumum sem ræsa í kjölfarið sérhæft ónæmissvar.
Markmið verkefnisins var að kanna áhrif lýkópódíum alkalóíða úr íslenskum jöfnum á þroskun angafrumna og boðefnaframleiðslu þeirra. Skoðuð voru áhrif hreinu efnanna annotin, annotinin og lannotinidin D, auk útdrátta úr lyngjafna og skollafingri. Óþroskaðar angafrumur voru ræktaðar með og án prófefna og þroskun þeirra metin með því að kanna tjáningu á ákveðnum yfirborðssameindum með flúrskinslitun og frumuflæðisjárgreiningu. Áhrif efnanna á boðefnaframleiðslu voru metin með ELISA aðferð.
Niðurstöður verkefnisins sýna að útdrættir úr lyngjafna og skollafingri og hreina efnið lannotinidin D hafa bælandi áhrif á tjáningu yfirborðssameinda sem tengjast þroskun angafrumna, s.s. CD86, HLA-DR og CCR7. Hreinu efnin annotin, annotinin og útdráttur úr lyngjafna minnkuðu myndun á ónæmisbælandi boðefninu IL-10 og juku myndun á ónæmisörvandi boðefninu IL-12p40 og leiddu þannig til hækkaðs hlutfalls IL-12p40/IL-10 sem bendir til að þau geti stýrt T frumum í Th 1 ónæmissvar.
Þessar niðurstöður benda til þess að í lyngjafna séu efni sem hægt sé að nota til að auka Th1 ónæmissvar eins og t.d. í ónæmisaðgerðum gegn krabbameini og alvarlegum sýkingum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Ingibjorg_fixed.pdf | 3,73 MB | Lokaður | Heildartexti |