Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/40323
Húsmóðurhlutverkið er margþætt hlutverk sem hefur í gegnum aldirnar mótast af hugmyndum um konur, ímynd þeirra og kvenleika. Af skyldum húsmæðra og störfum má nefna barnauppeldi, þrif og þvotta, eldamennsku og matargerð, ásamt yfirumsjón með heimilinu og þeim sem bjuggu innan þess. En stundum þurftu sumar konur að sinna meiri vinnu en þeirri sem þeim var ætlað að sinna og féll inn á þeirra svið.
Markmið þessarar ritgerðar er að skoða húsmæður í sveit á Íslandi með áherslu á að rannsaka hvers konar vinnu þær unnu og hvaða skyldum þær höfðu að gegna. Jafnframt hvaða væntingar voru gerðar til þeirra og hvaða álag var á þeim við þessi störf. Rannsóknartímabilið er 1900–1940. Auk ýmissa fræðirita eru það fyrst og fremst frásagnir fólks af vinnu húsmæðra í sveitasamfélaginu sem liggja til grundvallar þessari ritgerð. Þar er um að ræða minningabækur á borð við Móðir mín húsfreyjan en einnig spurningalistar Þjóðháttasafns Þjóðminjasafns Íslands um ýmislegt sem snertir landbúnað og störf kvenna.
Rannsóknin leiðir í ljós að vinna og skyldur húsmæðra voru fjölbreyttar en vinnuálag var almennt mikið á húsmæðrum til sveita þótt vissulega væri munur á aðstæðum þeirra eftir stétt og stöðu. Fækkun vinnufólks, húsnæði og skipulag eldhúsa ásamt tækninýjungum og rafvæðingu höfðu áhrif á störfin, hvort sem það var til að auka vinnu og álag á þeim eða til að einfalda vinnuna og spara tíma. Gerðar voru miklar kröfur um að konur sinntu starfi sínu vel og væru „fyrirmyndar húsmæður.“ Einnig lögðu þær sig sjálfar fram um að sinna vel vinnu sinni, hvort sem það var við dagleg störf, sem gestgjafar eða annað sem þær tóku sér fyrir hendur. Rannsóknin leiðir einnig í ljós að konur voru í vaxandi mæli hugsandi um kjör sín og aðstöðu, helst í samhengi við vinnuaðstöðu (skipulag húsa) og ýmis þægindi (rafmagn, rennandi vatn og svo framvegis) sem skiptu máli ekki aðeins fyrir þær sjálfar heldur einnig framtíð sveitanna.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA_ritgerð_2022_Sagnfræði_JórunnRögnvalds_Hennar-voru-störfin.pdf | 462 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman_yfirlýsing_JórunnRögnvalds_2022.pdf | 438,98 kB | Lokaður | Yfirlýsing |