Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/40514
Viðfangsefni þessa ritverks er upplifun einstaklinga á því að spila spunaspil meiri hluta eigin ævi. Spunaspil hefur færst frá því að vera mjög svo jaðarsett áhugamál og komist nær almennri dægurmenningu síðustu ár. Þeir sem stunda þetta áhugamál hafa vaxið úr grasi og þroskast með áhugamáli sínu í áranna rás. Markmiðið er að kryfja upplifun fólks og læra hvaða áhrif þetta áhugamál hefur á einstaklinga yfir langan tíma, finna hvað áhugamálið skilur eftir sig og hvernig það mótar félagslegt umhverfi einstaklinga. Kenningar Erikssons um sjálfmyndun á fimmta æviskeiði lífsins eru skoðaðar ásamt gildum tómstunda í samhengi hugmynda Reykjavíkurborgar og snert á hugmyndum Lyllemir um leiki. Spunaspil verða kynnt og saga þeirra rekin í stuttu máli og þau eru sett í samhengi við 21. aldar hæfni Devaney og Moroney. Notast var við eigindlega rannsóknaraðferð í formi hálfopinna viðtala, sem tekinn voru við sex karlmenn sem hafa stundað spunaspil í meira en 20 ár. Þeir voru á aldrinum 42 til 50 ára, fjórir í sambúð með fjölskyldu og tveir einstæðir. Notast var við snjóbolta og tengslanetsúrtak þar sem kröfur um spilaaldur voru mjög háar. Einhverjar rannsóknir hafa verið gerðar á spunaspilum, en engar rannsóknir tengdar spunaspili sem lífstíðaráhugamáli.
Helstu niðurstöður voru þær að langtíma spilun spunaspila virðist hafa jákvæð áhrif á þá einstaklinga sem tóku viðtölin. Þeir hugsuðu til baka með jákvæðum hætti og tengjast áhugamálinu það mikið að þeir bakreikna alltaf frá eigin aldri til að komast að því hve lengi þeir hafa stundað spunaspil. Fimm af sex viðmælendum lærðu um spunaspil frá skólafélögum og þrír viðmælendur tengdu fyrstu upplifanir við jafningjahópinn sem þeir spiluðu með á þeim tíma. Allir viðmælendur töldu sig hafa lært félagsfærni á spilunum og einn þeirra fullyrti að þetta væri mikilvæg atvinnuhæfni, á meðan öðrum fannst spunaspil frábært verkfæri til þess að læra inn á einstaklinga. Öllum viðmælendum fannst spilamót mikilvægur þáttur í áhugamálinu og fannst öll menning áhugamálsins skila sér hvað sterkast á þeim viðburðum. Þessar niðurstöður renna stoðum undir það að spunaspil eru gott verkfæri fyrir sjálfsskoðun og gefa þeim sem þau spila tækifæri til þess að setja sig bæði í spor annarra og prófa sjálfa sig í margvíslegum aðstæðum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Óskar-Freyr-Hinriksson-Spunaspil-sem-langtíma-áhugamál.pdf | 1.04 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
2016_03_skemman_yfirlysing_lokaverkefni_29.03.16.pdf | 28.83 kB | Lokaður | Yfirlýsing |