Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/40558
Verkefnastjórnun er gagnlegt hjálpartæki þegar fyrirtæki leggjast í meiriháttar framkvæmdir og breytingar sem getur leitt til aukinnar skilvirkni og hagkvæmni. Markmið þessarar tilviksrannsóknar var tvíþætt. Annars vegar var að greina uppbyggingu fóðursílóa hjá Fóðurverksmiðjunni Laxá hf. útfrá fræðum verkefnastjórnunar um umfang, skipurit, skiptingu ábyrgðar, samskiptaáætlun, kostnaðar- og tímaáætlun, líftíma, áhættugreiningu, áhættustjórnun, áætlunargerð og eftirfylgni. Hins vegar var markmiðið að kanna áhrif uppbyggingarinnar á sjálfbærnistefnur og sjálfbærnimarkmið fyrirtækisins og viðskiptavina þess. Rannsóknin var framkvæmd með opnum viðtölum við stjórnendur verksmiðjunnar sem tekin voru reglulega yfir tímabilið sem uppbyggingin stóð yfir. Niðurstöðurnar voru þær að í meginatriðum var ekki stuðst markvisst við fræði verkefnastjórnunar á verktímanum þó þau hafi verið höfð til hliðsjónar í einstaka verkþáttum. Þó uppbyggingin hafi tekist vel til í heildina, er ljóst að markviss notkun á fræðum og aðferðum verkefnastjórnunar hefði komið að góðum notum við skipulagningu og myndað yfirsýn yfir heildarmynd framkvæmdarinnar ásamt aðhaldi í tíma- og kostnaðaráætlun hverju sinni. Verkefnið leiðir af sér breytingar á vinnsluferlum hjá fyrirtækinu og er það á ábyrgð stjórnenda að innleiðing gangi vel. Varðandi áhrif uppbyggingarinnar á sjálfbærni er ljóst að afleiðing verkefnis hefur jákvæð áhrif á sjálfbærni fyrirtækisins og stærstu viðskiptavina þess. Minnkuð plastnotkun um 15 tonn á ári og fækkun vörubretta sem bæði dregur úr urðun og minnkar kolefnisspor, eru dæmi um afleiðingar sem stuðla að frekari sjálfbærni.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
ValgardurOliOmarsson_MS_lokaverk.pdf | 967,63 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |