Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/40617
Í 5. til 9. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er að finna ákvæði um bætur fyrir varanlega örorku. Með varanlegri örorku er átt við varanlegt fjárhagslegt tjón, þ.e. tap tjónþola á atvinnutekjum eftir batahvörf af völdum tjónsatburðar. Bætur fyrir varanlega örorku hafa það markmið að bæta það tjón sem tjónþoli verður fyrir vegna skerðingar á getu til að afla vinnutekna af völdum líkamstjóns.
Til þess að hægt sé að ákveða bætur fyrir varanlega örorku þarf að afmarka þrjár stærðir, sem margfaldaðar eru saman til að reikna út tjón tjónþola, sbr. 1. mgr. 6. gr. skbl. Þessar stærðir eru í fyrsta lagi örorkustig, sbr. 6. gr., í öðru lagi árslaun tjónþola, sbr. 7. gr., og í þriðja lagi margfeldisstuðull, sbr. 6. gr.
Umfjöllunarefni ritgerðarinnar er ein þessara þriggja stærða, þ.e. ákvörðun árslauna tjónþola samkvæmt mismunandi málsgreinum 7. gr. skbl. Almenna reglan samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skbl. er að árslaun skuli vera meðalatvinnutekjur tjónþola undangengin þrjú almanaksár fyrir tjónsdag. Þá er í 2. mgr. 7. gr. skbl. undanþáguheimild þegar fyrir hendi eru óvenjulegar aðstæður í tekjuöflun tjónþola á viðmiðunartímabili meginreglu 1. mgr. 7. gr. skbl. Í 3. mgr. 7. gr. skbl. er að finna ákvæði um lágmarksárslaun sem stuðst er við ef ákvæðum 1. eða 2. mgr. 7. gr. verður ekki beitt, og í 4. mgr. er sett viðmið um hámarkslaun.
Í ritgerðinni verður fjallað um 2. mgr. 7. gr. skbl. og þá sérstaklega beitingu hennar þegar um ræðir sjálfstætt starfandi tjónþola. Leitast verður eftir að svara ýmsum álitaefnum á borð við; hvenær um sé að ræða óvenjulegar aðstæður í skilningi 2. mgr. 7. gr. skbl. í tilvikum sjálfstætt starfandi tjónþola og hvaða önnur launaviðmið geti komið til greina sé fallist á að meginregla 1. mgr. 7. gr. skbl. gefi ekki rétta mynd af líklegum framtíðartekjum tjónþola.
Einnig verður fjallað um hver sé afstaða íslenskra dómstóla þegar deilt er um hvort taka eigi mið af hagnaði af rekstri tjónþola á viðmiðunartímabili 1. mgr. 7. gr. skbl.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Jón Hallmar Stefánsson.pdf | 303,39 kB | Open | Complete Text | View/Open | |
skemman-jón.pdf | 550,77 kB | Locked | Declaration of Access |