Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/40618
Töluverður fjöldi slysa verður á hverju ári. Til að mynda urðu að meðaltali 6.317 umferðarslys á ári hér á landi á árunum 2012 til 2021. Þá bárust Vinnueftirlitinu 2.215 tilkynningar um vinnuslys árið 2019. Daglega eiga sér því stað fjöldi atvika sem geta orðið grundvöllur að skaðabótakröfum utan samninga. Þegar slys hefur í för með sér varanlega skerðingu á getu til að afla vinnutekna hjá þeim sem fyrir því verður, tjónþola, á hann að öðrum skilyrðum uppfylltum rétt á skaðabótum fyrir varanlega örorku á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993 (hér eftir „skbl.“). Fjárhæð bótanna grundvallast á nokkrum þáttum sem nánar verða raktir í eftirfarandi umfjöllun. Meðal þeirra eru árslaun tjónþola sem ákvarðast á grundvelli 7. gr. skbl.
Hér verður tekið til skoðunar hvaða atriði hafa áhrif við það mat sem fer fram þegar árslaun eru ákvörðuð á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skbl. Ákvæðið er undantekningarregla sem varðar ákvörðun árslauna þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi hjá tjónþola síðustu þrjú almanaksár fyrir slys. Efnið verður nánar afmarkað við það hvort og þá hvernig tekjur tjónþola eftir slys geta haft áhrif á ákvörðunina.
Regla 2. mgr. 7. gr. skbl. er matskennd, líkt og orðalag hennar ber með sér. Segja má raunar að ákvörðunin byggi á rökstuddum spádómum um framtíðina. Tjónþolar láta oft á tíðum reyna á regluna, bótum til hækkunar, og koma því álitaefni tengd beitingu hennar reglulega til kasta dómstóla. Í eftirfarandi umfjöllun ber af þessum sökum mikið á dómafordæmum. Fjallað verður almennt um skilyrði fyrir beitingu reglunnar, aðstæður sem geta orðið til þess að henni sé beitt og hvaða þættir hafa áhrif við mat á því hvaða árslaunamælikvarða skuli leggja til grundvallar. Þá verður fjallað sérstaklega um það hvort og þá hvernig þær atvinnutekjur sem tjónþoli vinnur sér inn eftir slysið geti haft áhrif við þessa ákvörðun. Einkum verður þar tekið mið af tveimur dómum Hæstaréttar, Hrd. 22. febrúar 2018 (70/2017) og Hrd. 22. febrúar 2018 (71/2017). Ásamt ofangreindu verður einnig fjallað almennt um skaðabætur fyrir varanlega örorku, tilgang örorkumats og þá samanburðaraðferð sem þar er beitt.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Margrét Sjöfn Magnúsdóttir - BA ritgerð.pdf | 367,86 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing.pdf | 326,41 kB | Lokaður | Yfirlýsing |