Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/40662
Inngangur: Athyglisbrestur með ofvirkni (ADHD) er taugaþroskaröskun sem kemur fram hjá börnum og einkennist af athyglisbresti, ofvirkni og hvatvísi. Orsakir röskunarinnar eru að mestu erfðafræðilegar en áhættuþættir geta einnig verið sálfræðilegir, félagsfræðilegir eða tengst meðgöngu og fæðingu.
Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvort mögulega væru tengsl á milli ADHD lyfjanotkunar barna og nokkurra þátta úr fæðingarskrá: kyn, fyrri fæðinga móður, upphaf fæðingar, meðgöngulengd, aldur móður við fæðingu barns, fæðingarlengd og fæðingarþyngd barns.
Aðferðir: Ópersónugreinanleg gögn 25.732 barna sem fengin voru úr fæðingarskrá og lyfjagagnagrunni Embættis landlæknis fyrir rannsóknina „Icelandic mother and child health study“ voru notuð við rannsóknina.
Niðurstöður: Drengir voru þrefalt líklegri en stúlkur til að fara á ADHD lyfjameðferð (leiðrétt OR = 3,00 [95% ÖB: 2,68 – 3,36]). Fyrir hvert ár sem aldur móður við fæðingu barns hækkaði voru 7% minni líkur á að barn hennar færi á ADHD lyfjameðferð (leiðrétt OR = 0,93 [95% ÖB: 0,92 – 0,94]). Börn frumbyrja voru 18% ólíklegri til að fara á ADHD lyfjameðferð en börn fjölbyrja (leiðrétt OR = 0,82 [95% ÖB: 0,73 – 0,92]). Þá voru börn (f. 2002-2005) sem fæddust eftir sjálfkrafa upphaf fæðingar 25% ólíklegri til að fara á ADHD lyfjameðferð en börn sem fæddust eftir gangsetningu (leiðrétt OR = 0,75 [95% ÖB: 0,63 – 0,90]). Meðgöngulengd móður, fæðingarlengd og fæðingarþyngd höfðu ekki marktæk áhrif á hvort barn fari síðar á ADHD lyfjameðferð.
Ályktanir: Samkvæmt niðurstöðum þessarar rannsóknar eru kyn og aldur móður við fæðingu barns þeir þættir sem höfðu hvað mest forspárgildi um hvort barn fari síðar á ADHD lyfjameðferð. Ekki er hægt að álykta um orsakasamband á milli fæðingarbreytanna sem skoðaðar voru og ADHD lyfjameðferðar. Niðurstöðurnar gefa þó vísbendingar um þá þætti sem hægt væri að skoða í framtíðarrannsóknum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Notkun ADHD lyfja hjá íslenskum börnum fædd 2002-2007 og tengsl þeirra við þætti í fæðingarskrá - UÝH.pdf | 1,17 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing um meðferð lokaverkefna UÝH.pdf | 315,66 kB | Lokaður | Yfirlýsing |