Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/40673
Bólga er lífsnauðsynlegt viðbragð sem stuðlar að endurheimt eðlilegrar starfsemi vefs þegar hann verður fyrir hnjaski eða sýkist. Ef bólga leysist ekki getur hún leitt til krónískrar bólgu sem getur haft verulega neikvæð áhrif á heilsu. Bólguhjöðnun er ómissanlegt ferli sem kemur í veg fyrir myndun krónískrar bólgu. Þetta ferli felur í sér myndun á svokölluðum bólguhjöðnunarboðefnum sem snúa við þeim neikvæðu áhrifum sem bólga skapar í vefjum og kemur í veg fyrir að bólga verði að krónískri bólgu. Mörg þessara boðefna eru mynduð úr ómega-3 fjölómettuðum fitusýrum eins og dókósahexaen sýru (DHA) sem styður langstandandi kenningar um getu þeirra til að sporna við bólgu. Náttúrulegar drápsfrumur (NK frumur) eru aðallega þekktar fyrir hlutverk þeirra í að eyða veirusýktum frumum og krabbameinsfrumum. Það hefur nýlega orðið að vinsælu rannsóknarefni að skoða mögulegt hlutverk þeirra í bólguhjöðnun. Óstaðfestar niðurstöður rannsóknarhópsins bendla Wnt boðleiðina sem byggir á Wnt viðtökunum LRP5/6, seyttum glýkópróteinum og nokkrum innanfrumu próteinum þar á meðal β-katenín og GSK3-β við bólguhjöðnun. Markmið þessa verkefnis var að ákvarða áhrif DHA á tjáningu sameinda sem tilheyra Wnt boðleiðinni í NK frumum. Áhrif DHA á tjáningu sameindanna var mæld með frumuflæðissjá, SimpleWes og ELISA.
Niðurstöðurnar sýna að ræktun NK fruma með DHA minnkar hlutfall fosfærðs GSK3-β og GSK3-β sem bendir til þess að DHA minnki virkjun Wnt boðferilspróteinsins GSK3-β í NK frumum. Þessar niðurstöður benda til þess að DHA geti haft áhrif á bólguhjöðnun með áhrifum sínum á GSK3-β. Þar sem GSK3-β er einnig talið hafa mikilvægt hlutverk í bólguferlum er möguleiki að minnkun á virkjun þess sé ein þeirra leiða sem ómega-3 fjölómettaðra fitusýra nota við að miðla bólguminnkandi áhrifunum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Áhrif DHA á seytun og tjáningu Wnt boðefna í NK frumum.pdf | 2,1 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlýsing.png-signed.pdf | 132,02 kB | Lokaður | Yfirlýsing |