Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/40735
Fljótlega eftir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2018, fór að bera á erfiðum samskiptum starfsmanna Reykjavíkurborgar og kjörins fulltrúa. Rötuðu þessi samskipti í fjölmiðla allt til ársins 2021, þegar kynnt var niðurstaða sálfræðistofu á starfsumhverfi og sálfélagslegu áhættumati, þess starfsfólks sem starfs síns vegna þurfti að koma fyrir borgarráð. Niðurstaðan var sláandi fyrir margra hluta sakir.
Þessi tíði fréttaflutningur er í rauninni ein helsta ástæða þess að ráðist var í rannsókn á samskiptum millistjórnenda sveitarfélaganna og kjörinna fulltrúa, þar sem upplifun millistjórnenda er í forgrunni. Forvitni lék á að vita hvort að erfið samskipti, á milli þessara tveggja hópa, væru viðtekin venja fyrir milllistjórnendur á sveitarstjórnarstiginu, eða hvort að þau væru fátíð. Starfsumhverfi millistjórnenda og upplifun undirmanna þeirra af samskiptum við kjörna fulltrúa voru einnig rannsökuð og hvort að sveitarfélögin sem skipulagsheildir séu jafn formleg og regluumhverfi þeirra ætti að gefa vísbendingar um.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að upplifun millistjórnenda af samskiptum við kjörna fulltrúa sé í raun og veru mjög jákvæð. Starfsumhverfi sveitarfélaganna er einnig nokkuð gott. Það þekkist hins vegar að kjörnir fulltrúar hafi gengið of langt í samskiptum sínum við, bæði millistjórnendur og undirmenn þeirra. Upplifun starfsmanna hefur í reynd leitt til þess að þeir hafa kosið að segja störfum sínum lausum, í stað þess að sætta sig við það starfsumhverfi sem þeir voru í. Sveitarfélögin sem skipulagsheildir eru ekki alveg jafn formleg og mætti halda.
Vonast er til þess að rannsóknin dýpki skilning á samskiptum millistjórnenda við kjörna fulltrúa. Læra þarf af þeim undantekningum á samskiptum hópanna, sem eru sum hver óviðeigandi, og gera betur í framtíðinni. Kjörnir fulltrúar og millistjórnendur bera sameiginlega ábyrgð á því að samskiptin séu farsæl. Farsæl samskipti þessara tveggja hópa eru gríðarlega mikilvæg, en saman þurfa bæði millistjórnendur og kjörnir fulltrúar að ná vel saman til að tryggja hagsmuni sveitarfélaganna, sem þeir starfa fyrir og íbúanna sem þau byggja.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Elín Jóna Rósinberg MPA lokaritgerð vormisseri 2022.pdf | 3,1 MB | Open | Complete Text | View/Open | |
Skemman undirrituð af EJR.pdf | 32,42 kB | Locked | Declaration of Access |