Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/40739
Reiðufé í umferð eykst á Íslandi á meðan notkun reiðufjár sem greiðslumiðils hefur óumdeilanlega farið minnkandi á umliðnum árum þar sem umtalsverð þróun í tækni varðandi greiðsluleiðir hefur átt sér stað. Notendur reiðufjár hafa notið góðs af einfaldleika og órekjanleika þess í langan tíma en helsti kostur reiðufjár reynist einnig helsti ókostur þess, þar sem þeir sem viðhafa undanskot frá skatti hafa möguleika á að notfæra sér téðan órekjanleika. Framganga fjártæknifyrirtækja getur náð nýjum hæðum eftir PSD2 tilmæli frá Evrópusambandinu og Seðlabanki Íslands íhugar að taka upp rafkrónu. Á tímum eins og þessum getur því reynst erfitt að sjá hvaða tilgangi almennt reiðufé þjónar og hver framtíð þess sé.
Með þessari rannsókn er leitast við að kanna viðhorf Íslendinga gagnvart seðlalausu samfélagi og hvort það sé eitthvert mynstur hvað varðar skoðanir þátttakenda í rannsókninni. Notast var við megindlega rannsóknaraðferð þar sem spurningalista var dreift á vefnum. Niðurstöður voru greindar og túlkaðar með lýsandi tölfræði þar sem skoðuð voru tengsl og munur á milli hópa með því að leggja fyrir marktektarpróf.
Niðurstöður leiddu í ljós að meirihluti þátttakenda taldi að Ísland gæti verið án reiðufjár. Hins vegar var einnig meirihluti sem sagðist mæla gegn því að reiðufé yrði gert upptækt á Íslandi. Mismunur og tengsl á milli hópa komu berlega í ljós þegar aldur þátttakenda var tekinn með í reikninginn en um þrjá aldurshópa var að ræða. Í ljósi niðurstaðna má álykta að með hækkandi aldri séu Íslendingar neikvæðari gagnvart seðlalausu samfélagi. Einnig mætti draga þá ályktun að komandi kynslóðir séu opnari fyrir róttækum breytingum í greiðslumiðlun og því gæti verið skynsamlegt fyrir yfirvöld að takmarka notkun reiðufjár til lengra tíma litið.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BS Ritgerð FINAL.pdf | 781,44 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlýsing.pdf | 502,67 kB | Lokaður | Yfirlýsing |