Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/40759
Markmið þessarar ritgerðar var að kanna hver ímynd stjórnmálaflokkanna, sem sæti eiga á Alþingi, var í mars 2022 og skoðað var hvort munur væri á ímyndarstöðu í huga kjósenda flokkanna og þeirra sem kusu aðra flokka. Lagt var mat á stöðu eftirtalinna flokka: Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, Vinstri grænir, Samfylkingin, Flokkur fólksins, Píratar, Viðreisn og Miðflokkurinn. Skoðað var með hvaða hætti miðuð markaðsfærsla og ímynd flokkanna tengdist samkeppnishæfni og árangri þeirra í kosningum. Þremur rannsóknarspurningum var leitast eftir að svara til að ná settu markmiði og eru þær: „Hver er ímynd stjórnmálaflokka sem náðu sæti á Alþingi 2021?“, „Hvernig hefur ímyndin breyst miðað við fyrri kannanir?“ og „Er samræmi milli ímyndar flokkanna og staðfærsluáformum þeirra og er munur eftir því hvort þátttakendur kusu flokkinn eða ekki?“.
Notast var við megindlega rannsóknaraðferð í formi spurningalista til að kanna hver ímynd stjórnmálaflokka var í huga þátttakenda. Við undirbúning rannsóknarinnar voru framkvæmdar tvær forkannanir. Sú fyrri snéri að því að spyrja einstaklinga hvaða orð eða orðasambönd þeir fengu fyrst upp í huga sinn tengt hverjum flokki fyrir sig í þeim tilgangi að fá hugmyndir að ímyndarþáttum rannsóknarinnar. Önnur forkönnunin snéri að því að forprófa spurningalista rannsóknarinnar í þeim tilgangi að athuga hvort spurningalistinn væri skiljanlegur og hvort einhverju þyrfti að breyta. Að forkönnun lokinni var endanlegur spurningalisti settur fram rafrænn og honum dreift á samfélagsmiðlinum Facebook sem og á tölvupóstfang nemenda Háskóla Íslands. Heildarfjöldi gildra svara voru 319 talsins.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að stjórnmálaflokkarnir sem rannsakaðir voru tengjast ímyndarþáttum rannsóknarinnar, þó misjafnlega sterkt. Þá gefa niðurstöður rannsóknarinnar einnig til kynna að staðfærsluáform stjórnmálaflokkanna eru nokkuð skýr í huga kjósenda flokkanna en ekki eins skýr í huga þeirra sem kusu aðra flokka. Stjórnmálaflokkarnir geta nýtt sér niðurstöður þessarar rannsóknar til að átta sig á hvar þeir standa í huga kjósenda samanborið við aðra flokka, hvar tækifærin liggja til þess að gera betur, hvaða hóp kjósenda þeir gætu mögulega sótt fylgi til fyrir næstu kosningar og hvaða breytingar flokkurinn þarf að tileinka sér til þess að ná sterkri, jákvæðri og einstakri ímynd í huga kjósenda.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Yfirlýsing skemman.pdf | 285.23 kB | Lokaður | Yfirlýsing | ||
Þykir hverjum sinn fugl fagur.pdf | 1.91 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |