is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/40764

Titill: 
  • „Til vonar og vara.“ Þjóðtrú austfirskra sjómanna
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Ritgerð þessi fjallar um þjóðtrú austfirskra sjómanna. Hún veitir innsýn í þjóðtrú þátttakenda og sýnir fram á það hvernig trúin skiptist í þætti og birtist við hin ýmsu tækifæri í lífi og starfi sjómanna. Þar gegnir hún mikilvægu hlutverki líkt og hún hefur gert allt frá árabátaöld. Ritgerðin er byggð á eigindlegri rannsókn en gagnasöfnun og greiningaferli tók mið af etnógrafíu þar sem viðtöl voru tekin við 15 sjómenn og fullum trúnaði heitið. Viðmælendur voru búsettir á Höfn, Djúpavogi, Breiðdalsvík, Stöðvarfirði og Fáskrúðsfirði. Rætt var við þrjá viðmælendur, með breiðu aldursbili, frá hverjum stað. Viðtölin fóru ýmist fram á heimilum viðmælenda, vinnustöðum á landi eða um borð í bátum við bryggju. Rannsóknin veitir innsýn í sjómennsku við Ísland og sýnir fram á það hvernig þjóðtrúin er enn til staðar meðal austfirskra sjómanna þrátt fyrir tæknivæðingu sem þeir kynnu að treysta frekar á. Í fljótu bragði er erfitt að greina þjóðtrú sjómanna enda er hún persónuleg og kann að birtast í draumum, hugsunum, orðum og athöfnum sjómanna og þeirra sem til hennar þekkja. Hún fær sjómenn og fólkið þeirra til þess að vanda sig á kveðjustundum og á sinn þátt í vandlegu vali á heppilegum vikudegi í upphafi vertíðar eða rétta deginum til þess að sjósetja. Trúin kemur fram í samskiptum sjómanna við fiska, fugla og sjávarspendýr og tengist tilliti þeirra til náttúru, himintungla og umhverfis. Hún loðir við eigur sem fara með til sjós, hluti sem verða að fylgja bátum og skipum milli eigenda, þrifnað um borð og flíkur sem ýmist teljast til happs eða óhapps. Þjóðtrúin fær sjómenn ekki einungis til þess að trúa á tilfinningu um hvert skuli stefna á útleið heldur einnig að eitthvað gott fylgi þeim til sjós og hjálpi þegar hætta steðjar að. Trú þessa öðlast sjómenn af hvorum öðrum mann fram af manni og stundum verður hún til hjá áhöfnum á stórum skipum, litlum áhöfnum á minni bátum eða sjómanni sem rær einn á lítilli trillu. Hvar sem hún verður til og hvert sem hún fylgir mönnum er ljóst að sjómenn bera mikla virðingu fyrir þjóðtrú hvors annars. Þjóðtrú sjómanna er hluti af því að takast á við flókinn og ófyrirsjáanlegan veruleika sem mætir mönnum á hafi úti. Hún á sér djúpar rætur og er mikilvæg arfleifð sem aldrei má gleymast.

Samþykkt: 
  • 3.5.2022
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/40764


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Skemman-yfirlýsing-Unnur-Malmquist-Jónsdóttir.pdf25.16 kBLokaðurYfirlýsingPDF
Til vonar og vara_ þjóðtrú austfirskra sjómanna_Unnur_Malmquist_Jónsdottir.pdf2.65 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna