Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/40859
Markmið þessarar rannsóknar var að fá innsýn í lífssögu ungmenna sem tilheyrðu þeim hópi sem var utan vinnumarkaðar í kjölfar efnahagshrunsins 2008, hvorki í vinnu, námi né starfsþjálfun, og nutu þjónustu Atvinnutorgs Reykjavíkurborgar á árunum 2012–2015. Atvinnutorgið var styðjandi vettvangur þar sem unnið var út frá einstaklingsmiðaðri nálgun með það fyrir augum að reyna að mæta þörfum hvers og eins. Markmið rannsóknarinnar var að fá að kynnast afdrifum þessa unga fólks og fá innsýn í það hvernig því vegnaði á árunum eftir hrun og allt til dagsins í dag, og hvort örmynda hafi gætt sem vísar til mótandi áhrifa þess að vera án vinnu og utan skóla á viðkvæmu mótunartímabili ungmenna. Öflun gagna hófst haustið 2021 og lauk í mars 2022 og byggist rannsóknin á lífssögum fjögurra einstaklinga sem deila þeirri reynslu er hér um ræðir. Tekin voru tvö viðtöl við hvern viðmælanda og spannar gagnasöfnun yfirgripsmikla og einstæða reynslu hvers og eins. Rannsóknarniðurstöður leiddu í ljós að viðmælendur áttu flókna lífssögu að baki sem einkennist af áföllum, ofbeldi, einelti og hindrunum á skólagöngu. Einkennandi fyrir hópinn eru uppbyggilegar væntingar til framtíðar með áherslu á nám og störf. Þar sem undantekningar gætti hafði viðkomandi komið á fót fjölskyldu sem átti hug hennar allan. Aðrir viðmælendur hafa orðið að hafa fyrir því að komast þangað sem þau eru í dag hvað nám varðar, og segja má að seigla einkenni skólagöngu þeirra þó að enn hafi þeim ekki tekist að ryðja öllum hindrunum úr vegi. Öll stefna þau á frekara nám og setja sér þar raunhæf og viðráðanleg markmið. Segja má að fyrri reynsla úr barnæsku og sálfélagslegur vandi sem fylgdi viðmælendum að loknum grunnskóla hafi frekar markað líf þeirra, framvindu í námi og stöðu á vinnumarkaði en örmyndun. Rannsóknarniðurstöður endurspegla einstaka, erfiða og oft á tíðum átakanlega reynslu viðmælenda úr æsku og aðdáunarvert er hvernig ungmennin náðu að endurbyggja félagslegan veruleika sinn að grunnskóla loknum, og studdust þar við trú á eigin getu og stuðning nákominna. Einnig má ætla að ráðgjöf á Atvinnutorgi á árunum eftir hrun hafi veitt markverðan stuðning sem varð til þess að styrkja trú þeirra á eigin getu og vinnutengda seiglu. Þó að viðmælendur hafi átt það sameiginlegt að uppfylla einhver atriði sem féllu undir skilgreiningu á NEET-hópnum á tímabili í kjölfar hruns, þá tilheyra þau honum ekki í dag. Því má segja að þótt reynsla viðmælenda beri á einhvern hátt með sér að áhrifa örmyndunar gæti á náms- og starfsferil þá er ekki hægt að fullyrða að þau áhrif séu mótandi til framtíðar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Meistararitgerð - Jóhanna Hildur.pdf | 923,84 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing lokaverkefni Jóhanna Hildur.pdf | 302,83 kB | Lokaður | Yfirlýsing |