Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/40885
Markmið rannsóknarinnar var að kanna upplifun og reynslu fullorðinna einstaklinga af skólaforðun með tilliti til birtingarmyndar, baklands og stuðnings og hvernig skólaforðun á yngri árum markaði þeirra náms- og starfsferla. Tekin voru hálfstöðluð viðtöl við sex einstaklinga á aldrinum um það bil 20 til 50 ára sem áttu sögu um skólaforðun á sínum námsferli, sem börn og unglingar.
Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að birtingarmyndir skólaforðunar eru fjölbreyttar en þátttakendurnir höfðu allir glímt við einhverja persónulega erfiðleika, en þar ber helst að nefna athyglisbrest með eða án ofvirkni, náms- og félagslega erfiðleika, kvíða og sálræn vandamál. Ástæður skólaforðunar viðmælendanna voru nokkuð fjölbreyttar og oft fleiri en ein. Flestir þátttakendur fengu greiningu á erfiðleikum sínum seint eða hafa ekki enn fengið hana, en álitu að slíkt greining eigi hugsanlega við í þeirra tilvikum. Þeir sem höfðu fengið greiningu fannst það hjálplegt til að fá stuðning við þeirra hæfi. Sameiginleg reynsla þátttakendanna var að þeir hefðu verið í einhvers konar feluleik á sinni skólagöngu, svo sem að gera sér upp veikindi eða laumast heim úr skólanum. Flestir þeirra upplifðu að hafa fengið stuðning frá foreldrum sínum en bakland þeirra var þó misjafnt. Aftur á móti vó það hvað þyngst í reynslu viðmælendanna, sem börn eða unglingar, að flestir upplifðu að þeir hefðu fengið lítinn sem engan stuðning frá starfsfólki skóla, en hefðu þurft slíkan stuðning við sínum vanda. Það var misjafnt hvernig stuðning þátttakendur hefðu þurft og fór það eftir því hver vandinn var. Að auki upplifðu flestir þátttakendur að hafa fengið slæmt viðmót frá kennara eða starfsfólki skóla sem hafði mikið að segja hvað varðar þeirra upplifun í skóla. Það má því segja að hér sé um að ræða flókið samspil, líkt og fræðin segja til um, og því er aldrei nein ein einföld nálgun til heldur þarf að miða við einstaklingsbundinn stuðning hverju sinni. Skólaforðun hafði einhver áhrif á náms- og starfsferla þátttakenda, einkum á námsárangur og námsframvindu, en þátttakendurnir hafa þó ekki látið hindranir stöðva sig og hafa allir haldið áfram námi eða eru í starfi og stefna á nám í náinni framtíð.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MA 2022 - GBG.pdf | 566,82 kB | Lokaður til...25.06.2027 | Heildartexti | ||
Yfirlýsing.pdf | 294,42 kB | Lokaður | Yfirlýsing |