is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/4093

Titill: 
  • Hreyfiíhlutun meðal grunnskólabarna : áhrif eins árs íhlutunar á hreyfingu og líkamsþyngdarstuðul : niðurstöður úr rannsókninni „Lífsstíll 7-9 ára barna“
Titill: 
  • Effects of a one-year school-based intervention on physical activity and body mass index : results from “Lífsstill 7-9 ára barna”
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Hreyfing er mikilvægur þáttur í að stuðla að heilsusamlegu líferni og koma í veg fyrir ofþyngd og offitu sem eru stórir áhættuþættir fyrir sjúkdóma af ýmsum toga. Með því að auka hreyfingu barna er hægt að stuðla að bættari lífsstíl og betri líðan ásamt því að fyrirbyggja ofþyngd. Þar sem nærri öll börn ganga í skóla þá er hann góður vettvangur til þess að auka hreyfingu barna.
    Markmið rannsóknarinnar var að kanna stöðu hreyfingar og líkamsþyngdarstuðuls fyrir og eftir eins árs íhlutunartímabil með hliðsjón af þeim íhlutunaraðgerðum, þ.e. aukinni hreyfingu og fræðslu um hollara mataræði, sem framkvæmdar voru á þessum tíma.
    Þátttakendur í rannsókninni voru úr sex skólum á höfuðborgarsvæðinu, þremur íhlutunarskólum og þremur viðmiðunarskólum. Við upphaf rannsóknar voru þátttakendur í 2. bekk grunnskóla (≈7 ára) en í 3. bekk (≈8 ára) við lok hennar. Alls voru 145 þátttakendur (63,3% þátttakenda við upphaf) með nothæf gögn úr mælingum beggja ára sem notuð voru til greiningar. Í rannsókninni var notast við mælingar á hæð, þyngd og hreyfingu þátttakenda. Hreyfingin var mæld með hröðunarmælum og var notast við allt að fimm daga (þrjá virka daga og helgi) en minnst þrjá daga (tvo virka daga og einn helgardag) og var hún metin í meðalslögum á mínútu. Hæð og þyngd voru mæld til að meta líkamsþyngdarstuðul (þyngd(kg)/hæð (m)2) þátttakenda. Stöðumælingar I fóru fram haustið 2006 en stöðumælingar II haustið 2007.
    Helstu niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að börn í íhlutunarskólunum hreyfðu sig meira virka daga en börn viðmiðunarskólanna við lok íhlutunartímabilsins (meðaltalsmunur = 82,5 slög/mín, p=0,04). Hreyfing á skólatíma útskýrir hvað mest þennan mun milli hópanna á virkum dögum því börn í íhlutunarskólunum voru um 44% virkari en viðmiðunarhópurinn yfir þann tíma sem þau voru í skólanum (p<0,001). Það var töluverður munur á hreyfingu kynjanna, þar sem drengir hreyfðu sig meira en stúlkur, sé litið á báða rannsóknarhópana. Líkamsþyngdarstuðull íhlutunarhóps var að meðaltali lægri en líkamsþyngdarstuðull viðmiðunarhóps við upphaf og lok rannsóknar (p=0,019). Breytingar innan þyngdarflokka voru jákvæðar hjá báðum hópum við lok íhlutunartímabilsins, en fjórir einstaklingar í íhlutunarhópi sem voru of þungir við upphaf rannsóknarinnar voru komnir í kjörþyngd við lok hennar. Tveir einstaklingar í viðmiðunarhópi sem voru of feitir við upphaf voru flokkaðir of þungir við lok rannsóknarinnar og einn hafði náð sér niður í kjörþyngd úr ofþyngd.
    Niðurstöðurnar gefa það til kynna að íhlutunaraðgerðir hafi skilað sínu í að auka hreyfingu barnanna og þá sérstaklega á skólatíma þar sem gríðarleg aukning var á hreyfingu íhlutunarhóps við lok tímabils. Einnig getum við áætlað að íhlutunin hafi náð betur til drengjanna en stúlknanna þar sem hreyfing þeirra jókst mun meira á tímabilinu.
    Lykilorð: Hröðunarmælar, líkamsþyngdarstuðull.

Samþykkt: 
  • 4.11.2009
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/4093


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
ul_fixed.pdf1,24 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna