Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/40984
Bakgrunnur: Gjörgæslusjúklingar eiga á hættu að fá ýmsar sýkingar sem tengjast legu á gjörgæsludeild, þar á meðal blóðsýkingar. Gjörgæslutengdar blóðsýkingar tengjast hærri dánartíðni sjúklinga, lengri legutíma á gjörgæsludeild og sjúkrahúsi og auknum kostnaði.
Markmið: Að kanna hlutfall gjörgæslutengdra blóðsýkinga innan Landspítala yfir 24 mánaða tímabil, lýsa gjörgæslutengdum blóðsýkingum með tilliti til örverutegunda og mengaðra blóðsýna og kanna einkenni/áhættuþætti sjúklinga með gjörgæslutengdar blóðsýkingar. Einnig að kanna reynslu hjúkrunarfræðinga gjörgæsludeilda Landspítala af sýkingavörnum innan gjörgæsludeildanna.
Aðferð: Notuð var blönduð aðferðafræði með samtvinnuðu sniði. Megindlegi hlutinn var afturskyggn, lýsandi þversniðsrannsókn frá 1. janúar 2020 til 31. desember 2021. Úrtak rannsóknar voru sjúklingar 18 ára og eldri sem lágu ≥48 klukkustundir á gjörgæsludeildum og fengu gjörgæslutengda blóðsýkingu. Gögnum var safnað úr sjúkraskrám og greind með lýsandi tölfræði. Eigindlegi hlutinn byggði á tveimur rýnihópaviðtölum við átta hjúkrunarfræðinga gjörgæsludeilda. Viðtalsgögnin voru greind með þemagreiningu.
Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu fengu 23 sjúklingar gjörgæslutengda blóðsýkingu eða 3,3% sjúklinga sem lágu ≥48 klukkustundir á gjörgæsludeildum (N=702). Algengasti flokkur örvera var kóagúlasa neikvæðir stafýlókokkar og næstalgengastar voru gram-neikvæðar bakteríur og Candida sveppategundir. Stór hluti jákvæðra blóðræktana taldist mengun. Flestir sjúklinganna 23ja fengu ífarandi öndunarvélameðferð, voru alvarlega veikir við innlögn á gjörgæslu samkvæmt APACHE II stigun, djúpt svæfðir, með ífarandi íhluti og lágu lengi á gjörgæsludeild. Sjúklingarnir skiptust jafnt milli gjörgæsludeilda og meirihluti lá á fjölbýlum. 48% (11/23) sjúklinganna létust á rannsóknartímabilinu. Í rýnihópaviðtölum komu fram tvenn yfirþemu reynslu hjúkrunarfræðinga af sýkingavörnum á gjörgæsludeildum: 1) „Standardinn mætti alveg vera aðeins hærri“ sem greindist í sex undirþemu og 2) „Hindranir fyrir réttu verklagi sýkingavarna“ sem hafði undirþemun þrengsli og úrelt húsnæði, mönnun og tímaskortur, mótstaða við breytingar, ónákvæm skráning, erfitt aðgengi að upplýsingum og óljós ábyrgð og utanumhald.
Ályktun: Hlutfall sjúklinga sem fékk gjörgæslutengda blóðsýkingu er lágt en virðist tengjast verri útkomu. Fjölmörg sóknarfæri eru innan sýkingavarna á gjörgæsludeildum Landspítala. Fjöldi mengaðra blóðsýna gefur til kynna að bæta þurfi vinnubrögð við blóðræktanir.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MS ritgerð pdf lokaeintak.pdf | 2.97 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman yfirlýsing.pdf | 213.66 kB | Lokaður | Yfirlýsing |