is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/40993

Titill: 
  • Hlutur sjávarútvegs á hlutabréfamarkaði: Eru forsendur til skráningar að nýju?
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Fljótlega eftir stofnun kauphallar hér á landi tók sjávarútvegsfyrirtækjum að fjölga á markaði. Í kringum aldamótin 2000 voru fleiri en tuttugu sjávarútvegsfyrirtæki skráð á hlutabréfamarkað og hafa þau aldrei verið fleiri, hvorki fyrr né síðar. Fljótlega tók þeim þó að fækka, með meiri hraða en þegar þau komu inn á hlutabréfamarkaðinn, þar til einungis eitt þeirra varð eftir árið 2008. Á síðustu árum hafa þó tvö sjávarútvegsfyrirtæki bæst í hópinn og telja þau því þrjú í dag. Það mætti þó ætla að sjávarútvegsfyrirtæki væru mun sýnilegri á hlutabréfamarkaðinum hér á landi, enda eina helsta atvinnugrein okkar Íslendinga. Í þessari ritgerð verður gerð úttekt á helstu ástæðum fyrir upprunalegri komu sjávarútvegsfyrirtækjanna á hlutabréfamarkað, hvað olli brottfari þeirra af markaðinum og hvort uppi séu tækifæri fyrir skráningu sjávarútvegsfyrirtækja á nýjan leik.
    Á upphafsárum hlutabréfamarkaðarins mátti sjá mikinn áhuga fyrirtækja til skráningar enda sáu forsvarsmenn fyrirtækjanna leiðir til hagræðingar auk þess sem fjárfestar gátu loks losað um stöðu sínar í fyrirtækjunum. Í skráningu fyrirtækjanna fólst einnig aukið tækifæri til hagstæðari fjármögnunar fyrirtækjanna. Þannig áttu fyrirtækin auðveldara með útgáfu og sölu á nýjum hlutum, sem og með að tryggja sér hagstæðari vaxtakjör á lánum, hvort sem um var að ræða útgáfa á skráðum markaðslánum eða með hagstæðari lántökum í bönkum. Á þessum tíma mátti einnig sjá vísbendingar um hjarðhegðun stjórnenda þegar kom að skráningu enda um nýtt fyrirbæri að ræða hér á landi. Þessi þróun nýskráninga stöðvaðist loks og í kjölfarið hófst brottganga sjávarútvegsfyrirtækjanna af markaði. Samrunar og yfirtökur urðu nýtt fordæmi sjávarútvegsfyrirtækjanna og þannig fækkaði skráðu fyrirtækjunum hratt og örugglega. Einnig voru dæmi um fyrirtæki sem einfaldlega voru afskráð án þess að til samruna, með eða án yfirtöku, væri um að ræða. Verð á hinum skráðu sjávarútvegsfyrirtækjum var oft á tíðum ekki í samræmi við væntingar fjárfesta sem og umfang arðgreiðslna þeirra. Þannig reyndist áhugi fjárfesta á hlutabréfum í sjávarútveginum ekki nægjanlegur, sem gerði sjávarútvegsfyrirtækjunum erfitt fyrir á markaðnum.
    Áhugi landsmanna á hlutabréfamarkaðinum hefur farið vaxandi á undanförnum misserum og hefur virkni markaðarins sjaldan verið eins mikill sem aftur ýtir undir löngun fyrirtækja til skráningar. Kynslóðaskipti í sjávarútvegsfyrirtækjum sem mörg eru fjölskyldufyrirtæki gera það einnig að verkum að skráning er álitlegri kostur nú en áður auk þess sem vaxtastig í landinu er ákjósanlegt til skráningar. Tækifæri sjávarútvegsins á hlutabréfamarkaði er því til staðar en mikilvægt er að sérhvert fyrirtæki taki þá ákvörðun sem æskileg er fyrir það sjálft, á eigin forsendum.
    Þessu til viðbótar er ljóst að áralangar deilur um kvótakerfið í íslenskum sjávarútvegi hafa eflaust spilað sinn þátt í áhugaleysi fjárfesta á íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum sem fjárfestingakosti. Hugsanleg óvissa um tilvist kerfisins eða miklar breytingar á þeim, gætu hafa átt sinn þátt í að fæla fjárfesta frá fyrirtækjunum. Tilraunir til þess að skapa sátt um kerfið, dreifingu arðs af auðlindinni og fleiri þátta, hafa því verið aðilum hugleiknar. Með sterkari hlutabréfamarkaði, auknum upplýsingakröfum til fyrirtækjanna sem og kröfum um samfélagslega ábyrgð, hafa menn litið til nýskráningar sjávarútvegsfyrirtækja sem lið í þessari mögulegu sátt. Sátt um stýringu sóknar í auðlind sjávarins og ábyrgri nýtingu hennar er greininni, sem og landsmönnum öllum afar mikilvæg. Vandi er um að spá hvort hlutabréfamarkaðurinn verði tæki til þess að skapa þessa sátt, sem og hvort möguleg sátt um kvótakerfið sé í raun raunsæ.

Samþykkt: 
  • 6.5.2022
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/40993


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Tómas Veigar-LOKASKIL.pdf679.85 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing.pdf225.16 kBLokaðurYfirlýsingPDF