Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/41025
Meginmarkmið ritgerðarinnar er að skoða hvernig íslenskt landsliðsfólk í knattspyrnu notar samfélagsmiðilinn Instagram til að birtast fylgjendum sínum. Einnig er það markmið ritgerðarinnar að skoða hvort að munur sé á framsetningu sjálfsins á milli kynjanna og jafnframt hver sá munur er. Í fræðilega hluta rannsóknarinnar er stuðst við kenningar Erving Goffman og George Herbert Mead um sjálfið og hvernig samfélagið hefur áhrif á sjálfið ásamt því að notast við kenningar Reawyn Connell um staðalmyndir kynjanna. Með markmiðsúrtaki voru teknir saman fimm leikmenn kvennalandsliðsins og fimm leikmenn karlalandsliðsins og Instagram reikningar þeirra skoðaðir. Tvær tilgátur voru settar fram. Önnur þeirra taldi að landsliðskonurnar sýni meira frá daglegu lífi sínu utan knattspyrnunnar heldur en landsliðskarlarnir. Hin tilgátan var sú að landsliðskonurnar komi til með að virðast stoltari af því að spila fyrir íslenska landsliðið heldur en leikmennirnir í karlalandsliðinu miðað við það sem fram kemur á Instagram reikningum beggja kynja. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna fram á að landsliðsfólkið birtist fylgjendum sínum ekki bara sem atvinnumenn í knattspyrnu heldur einnig sem einstaklingar sem eiga sér líf utan íþróttarinnar. Niðurstöðurnar styðja við aðra tilgátuna, landsliðskonurnar virðast stoltari af því að spila fyrir íslenska landsliðið, en hafna hinni, leikmenn karlalandsliðsins sýndu meira frá daglegu lífi sínu utan knattspyrnunnar.
| Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
|---|---|---|---|---|---|
| BA- ritgerð lokaskil - YFIRFARIÐ AET.pdf | 1,64 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
| LOKAVERKEFNI.pdf | 341,73 kB | Lokaður | Yfirlýsing |