Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/41045
Grunnur núverandi ellilífeyriskerfis var lagður í kjarasamningum ASÍ og VSÍ 1969, þar sem helsta nýjungin var sú að tryggja almennu launafólki lífeyrissjóðsaðild. Með samningunum var gert ráð fyrir að lífeyrissjóðsgreiðslur yrðu hrein viðbót við ellilífeyri almannatrygginga, og skylduaðild var að sjóðunum. Íslenska ellilífeyriskerfið er byggt upp af þremur stoðum, almannatrygginga- kerfinu, lífeyrissjóðakerfinu og séreignarsparnaðinum; tvær þær fyrstnefndu eru meginstoðir þess. Vegna skerðingar og tekjutengingar er sameiginleg virkni meginstoðanna þannig að greiðslur almannatrygginga skerðast um allt að 45% vegna greiðslna úr lífeyrissjóði, fyrir utan aðra skattheimtu. Þessi skerðing, og umfang hennar, hefur komið fólki í opna skjöldu þegar ellilífeyrisaldri er náð. Mörgum þykir kerfið vera ógagnsætt og ófyrirsjáanlegt, enda er það „bútasaumskerfi“ sem stöðugt er verið að sauma við. Þar er ljóst að fyrirheitin sem gefin voru við upphafsstöðu lífeyriskerfisins 1969 í þá veru að meginstoðirnar tvær skildu vera aðskildar hafa verið brotin. Samkvæmt tilkallskenningu Roberts Nozicks og kantískri skyldusiðfræði er því erfitt að sjá íslenska ellilífeyriskerfið fyrir sér sem réttlátt og sanngjarnt. Skyldusiðfræði Kants sker á hefðbundin tengsl siðferðis og farsældar í sögu siðfræðinnar því samkvæmt kenningum hans er siðferðisgildi athafna ekki háð aðstæðubundnum afleiðingum þeirra. Nytjastefna í anda John Stuarts Mills er hins vegar siðfræðikenning sem horfir til nútíðar og framtíðar, og hefur það að markmiði að halda fram algildu siðalögmáli sem á rætur sínar í sjálfri hamingjuleitinni. Áherslur stefnunnar tengjast inntaki ellilífeyriskerfisins, sem ætti í grunninn að snúast um velferð og ánægju lífeyrisþeganna. Nytjastefnan er raunar kenning sem leitast við að samræma hagsmuni einstaklingsins og heildarinnar. Íslenska ellilífeyriskerfið hefur skorað svo hátt á sumum erlendum mælikvörðum að það hefur talist eitt það besta í heimi, ef ekki það besta. En sú útkoma byggir á stöðu kerfisins 2055 eða síðar og segir ekkert um kjör núverandi ellilífeyrisþega eða þeirra sem fara á eftirlaun næstu áratugina. Skerðingar, tekjutengingar og skattheimta hafa mikil áhrif innan kerfisins og um það bil 15% eldri borgara býr við afstæða fátækt. Allar stoðirnar innan kerfisins standa hins vegar þokkalega að vígi. Ef ríkisvaldið færi þá leið að ástunda hóflegar skerðingar og skattheimtu innan ellilífeyriskerfisins og hækkaði grunnlífeyri almannatrygginga þá gæti kerfið, samkvæmt kenningum nytjastefnunnar, orðið siðferðilega ásættanlegt á tiltölulega skömmum tíma.
| Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
|---|---|---|---|---|---|
| MA_ritg_JGS.pdf | 624,82 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
| 279883537_292827403049660_3504270791184449345_n.jpg | 60,52 kB | Lokaður | Yfirlýsing | JPG |