Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/41197
Inngangur: Áttavitinn er rannsókn sem hófst árið 2020 hjá Krabbameinsfélagi Íslands. Boðsbréf í rannsóknina voru send til einstaklinga sem greindust með krabbamein á Íslandi á árunum 2015 til 2019. Þátttakendur sem skráðu sig í rannsóknina svöruðu rafrænum spurningalista um allt ferlið í kringum krabbameinsgreininguna. Markmið þessarar rannsóknar var að athuga hvort einkenni krabbameinstengdar áfallastreituröskunar væru til staðar hjá einstaklingum sem greindust á þessu tímabili, hvert algengi einkenna röskunarinnar væri, hvort munur væri á algengi einkenna áfallastreituröskunar eftir því á hvaða viðtalsformi einstaklingar hlutu krabbameinsgreininguna og hvaða aðrir þættir gætu haft tengsl við einkenni áfallastreituröskunar.
Efni og aðferðir: Samtals svöruðu um 1547 þátttakendur spurningunum um einkenni áfallastreituröskunar. Til að meta einkenni áfallastreituröskunar var notast við fimm spurningar um einkennin (PC-PTSD-5) sem viðkomandi gæti hafa fundið fyrir á síðastliðna mánuðinum þegar svarað var. Borinn var saman fjöldi einstaklinga með einkenni áfallastreituröskunar eftir því hvernig þeir fengu upplýsingar um krabbameinið. Einnig var skoðað hvort þættir eins og kyn, greiningaraldur og aðrir sjúkdómar hefðu tengsl við einkenni áfallastreituröskunar. Niðurstöður: Um tveir þriðju þátttakenda (67%) Áttavitans fengu upplýsingar um krabbameinsgreiningu í viðtali hjá lækni og fjórðungur (25%) í símtali frá lækni. Af um 1547 einstaklingum sem svöruðu spurningunum um einkenni áfallastreituröskunar voru 82 einstaklingar (5%) sem svöruðu játandi við þremur eða fleiri einkennum tengdum röskuninni. Skoðað nánar voru 44 einstaklingar (3%) með þrjú einkenni, 23 einstaklingar (1,5%) með fjögur einkenni og 15 einstaklingar (1%) sem sögðust hafa upplifað öll einkennin síðastliðna mánuðinn þegar svarað var. Þegar kemur að einstaka spurningum um einkennin svöruðu flestir þátttakendur játandi við því að hafa fundið fyrir doða og að hafa verið úr tengslum við sig eða aðra, eða samtals 16% þátttakenda. Af þeim sem svöruðu neitandi við öllum einkennunum fengu 68% upplýsingarnar um krabbameinsgreininguna í viðtali hjá lækni, en af þátttakendum sem sögðust vera með öll einkennin fengu einungis 53% greininguna í viðtali hjá lækni. Ekki fannst marktækur munur á milli einstaklinga með þrjú eða fleiri einkenni áfallastreituröskunar eftir viðtalsforminu. Þó var minniháttar munur á hópunum þar sem 4,5% af þeim sem fengu viðtal voru með þrjú eða fleiri einkenni en 6,3% af þeim sem fengu símtal voru með þrjú eða fleiri einkenni (p=0,170). Greina mátti marktækan mun á milli fjölda kvenna og karla sem greindu frá einkennum áfallastreituröskunar, sem og á milli yngri og eldri einstaklinga við greiningu meins. Ályktanir: Rannsóknin sýnir að um 5% einstaklinga sem greindust með krabbamein upplifi þrjú eða fleiri einkenni áfallastreituröskunar, þegar að meðaltali eru liðin 3,5 ár frá greiningu. Fyrri rannsóknir hafa sýnt breytilega tíðni áfallastreituröskunar, og einnig að einstaklingar sem greinast með krabbamein séu líklegri en aðrir í samfélaginu til þess að fá áfallastreituröskun. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að konur og yngri einstaklingar séu í meiri hættu en aðrir.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Yfirlysing_Skemman.pdf | 478.54 kB | Lokaður | Yfirlýsing | ||
EmblaRunBjornsdottir.pdf | 746.5 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |