Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/41230
Inngangur: Bráð bólgusvörun er svar líkamans við áreiti en til að vefurinn komist aftur í samvægi þarf að hefja virkt ferli sem nefnist bólguhjöðnun. Margskonar frumur og sameindir taka þátt í bólguhjöðnunarferlinu en það hefur þó ekki verið kortlagt að fullu. Meðal fruma sem taka þátt í því eru náttúrulegar drápsfrumur eða NK frumur. Og meðal sameinda sem eru mikilvægar eru bólguhjöðnunarboðefni mynduð úr ómega-3 fjölómettuðum fitusýrum og próteinið Annexin A1. Þá er virkjun AMP kínasa talin mikilvæg í ferlinu og mögulegt að vaxtaþættinum VEGF sem er seytt af NK frumum í meðgöngu sé einnig seytt af NK frumum sem taka þátt í bólguhjöðnun. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna áhrif bólguhjöðnunarboðefnisins IL-10 á svipgerð og bólguhjöðnunarvirkni NK fruma úr mönnum. Efni og aðferðir: NK frumur voru einangraðar úr blóði heilbrigðra blóðgjafa. Þær voru annars vegar ræstar í 24 klukkustundir með bólguboðefnunum IL-2, IL-12 og IL-15 og hins vegar sömu boðefnum auk bólguhjöðnunarboðefnisins IL-10. Tjáning á próteininu Annexin A1 og virkjun AMP kínasa var skoðað með SimpleWes próteingreiningu og seytun á VEGF með ELISA aðferð. Einnig var tjáning á yfirborðssameindum NK frumanna skoðuð og hvort breyting hefði orðið á svipgerðarmynstri þeirra. Að lokum var kannað hvort NK frumur tjáðu viðtakann fyrir Annexin A1 (FPR2) á yfirborði sínu. Beitt var tölfræðilegri greiningu til að kanna hvort marktækur munur væri milli hópa.
Niðurstöður: NK frumur mynduðu Annexin A1 eftir ræsingu með bólguboðefnum en IL-10 hafði ekki áhrif á styrk Annexin A1 í NK frumum. AMP kínasi var fosfærður í ræstum NK frumum en IL-10 hafði ekki áhrif á styrk fosfærðs AMP kínasa. NK frumur seyttu ekki VEGF og tjáðu ekki FPR2 á yfirborði sínu. Ekki urðu marktækar svipgerðarbreytingar á NK frumunum eftir ræsingu með IL-10.
Ályktun: IL-10 hafði ekki áhrif á myndun eða virkjun bólguhjöðnunarsameinda. Mögulega var bólguhvetjandi ræsingin sem var notuð of sterk til að IL-10 gæti haft bólguhjaðnandi áhrif. Næstu skref eru að finna heppilegri ræsingu fyrir NK frumur til að líkja eftir bólguhjöðnun.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Virkjun_NK_fruma_og_myndun_bolguhjodnunarsameinda_BS_ritgerd.pdf | 2,21 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlysing_lokaverkefni.pdf | 213,31 kB | Lokaður | Yfirlýsing |