is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/41239

Titill: 
  • Áhrif meðferðar með háflæðisúrefni á afdrif fyrirbura á Vökudeild Barnaspítala Hringsins
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Mikilvægur lungnaþroski á sér stað á síðustu vikum meðgöngu. Þar af leiðandi glíma fyrirburar hvað helst við öndunarerfiðleika eftir fæðingu og þurfa oft á öndunaraðstoð að halda. Meðferð með háflæðisúrefni var tekin í notkun á Vökudeild Barnaspítala Hringsins árið 2014 og hefur verið talin jafn áhrifarík og meðferð með síblæstri. Háflæðisúrefni er oftast notað til að venja börnin af síblástursmeðferð. Markmið rannsóknarinnar var að kanna afdrif fyrirbura sem hlutu meðferð með háflæðisúrefni með tilliti til: daga á öndunaraðstoð, legutíma, daga með sondu og annarra þátta.
    Efnivið og aðferðir: Upplýsingar fengust úr Vökuskrá Barnaspítala Hringsins, sjúkraskrám barnanna og CIS-gjörgæslukerfi Vökudeildar. Rannsóknartímabilið var tvískipt, annars vegar börn fædd á árunum 2015 til 2019 og hlutu meðferð með háflæðisúrefni á Vökudeild og hins vegar viðmið sem voru á síblástursmeðferð, en ekki háflæðisúrefni, á Vökudeild á árunum 2009 til 2013. Tilfelli og viðmið voru pöruð eftir meðgöngulengd.
    Niðurstöður: Rannsóknarhópurinn samanstóð af 156 börnum. Tilfelli og viðmið voru sambærileg m.t.t. Apgars við 1 mín og 5 mín, kyns og hvort móðir fékk stera fyrir fæðingu. Niðurstöður sýndu að börn sem hlutu meðferð með háflæðisúrefni voru að meðaltali lengur með öndunaraðstoð (p=0,19). Börn sem hlutu meðferð með háflæðisúrefni voru auk þess marktækt lengur með sondu (p=0,02). Hvorki var marktækur munur á greiningu milli hópanna með sjónukvilla (p=1,0) né berkju- og lungnarangvöxt (p=0,48) en þó voru aðeins fleiri tilfelli sem greindust með berkju- og lungnarangvöxt.
    Ályktanir: Vökudeild Barnaspítala Hringsins hefur náð góðum árangri við innleiðingu meðferðar með háflæðisúrefni m.t.t. aukinnar áhættu á sjónukvilla og berkju- og lungnarangvexti. Ekki var marktækur munur á greiningu barnanna með berkju og lungnarangvöxt en þó sást smávægileg aukning í hópi tilfella sem gæti skýrt hækkun á meðalfjölda daga með öndunaraðstoð og fjölgun á dögum með sondu í þeim hópi. Þetta gæti bent til þess að það sé hópur barna færður of snemma yfir á meðferð með háflæðisúrefni. Því er þörf á fleiri rannsóknum með stærra þýði til að segja til um hvort munur milli hópanna stafi vegna breyttrar meðferðar.

Samþykkt: 
  • 13.5.2022
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/41239


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS ritgerð Sigrún Júlía Finnsdóttir.pdf1.11 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
yfirlýsing.jpeg286.67 kBLokaðurYfirlýsingJPG