is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/41244

Titill: 
 • Heilarýrnun og vitræn skerðing: Tengsl rýrnunarmynsturs á segulómun af heila við vitræna skerðingu
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Heilabilun er heilkenni sem felur í sér skerðingu á vitrænni getu og færni til athafna daglegs lífs. Undirgerðir heilabilunar eru margar og eru skilgreindar eftir orsök. Algengasta orsök heilabilunar er Alzheimer sjúkdómur. Í heilabilun kemur oft fram rýrnun á heilavef og eru svæði rýrnunar mismunandi eftir undirgerðum. Greining á heilabilun er margþætt og er sífellt í þróun. Til að greina rýrnun á heilavef er ýmist notast við segulómun eða tölvusneiðmynd af heila. Við mat á vitrænni getu er notast við ítarleg taugasálfræðileg próf sem hvert metur færni á ákveðnu vitrænu sviði. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða hvort tengsl væru á milli rýrnunarmynsturs á segulómun af heila og þess mynsturs vitrænnar skerðingar sem birtist í taugasálfræðimati.
  Efniviður og aðferðir: Heildarfjöldi í úrtaki voru 199 einstaklingar með væga vitræna skerðingu. Gögn voru fengin úr rannsókn minnismóttöku Landspítalans á árunum 2014-2018 sem kallast „Eðli og framvinda vægrar vitrænnar skerðingar“. Þátttakendur voru flokkaðir í fjóra hópa eftir rýrnunarmynstri á segulómun: drekahlífandi (HS), randkerfisríkjandi (LP), hefðbundið Alzheimermynstur (TAD) og engin rýrnun (NAT). Hóparnir voru bornir saman með tilliti til frammistöðu á 10 taugasálfræðilegum prófum. Enn fremur var horft til greiningar á vitrænni skerðingu í kjölfar taugasálfræðimats. Leiðrétt var fyrir aldri og tölfræðigreiningar notaðar til að bera saman frammistöðu hópa.
  Niðurstöður: Í einungis 8 prófþáttum af 29 reyndist marktækur munur milli hópa. Voru það 4 próf á sviðum yrts atburðaminnis, tungumáls og stýrifærni. Í þeim tilvikum voru einstaklingar með TAD rýrnunarmynstur með lægsta meðaltal stiga í öllum tilvikum samanborið við hina hópana. Marktækur munur var meðal annars í tafarlausri prófun á söguprófi milli TAD miðað við HS(p<0,001), TAD miðað við LP(p=0,001) og TAD miðað við NAT(p=0,008). Þegar hópar voru bornir saman innbyrðis reyndist LP rýrnunarmynstur með marktækt betri frammistöðu miðað við HS rýrnunarmynstur á sviði yrts atburðaminnis í tafarlausri prófun orðalista (p=0.014) ásamt tafarlausri (p=0.039) og seinkaðri prófun í söguprófi (p=0.005).
  Ályktanir: Þessar niðurstöður benda til þess að rýrnunarmynstur á segulómun af heila eitt og sér geti ekki spáð fyrir um birtingarmynd vitrænnar skerðingar milli hópa. Þó virðist segulómun aðgreina vitræna skerðingu TAD rýrnunarmynsturs frá öðrum mynstrum. Niðurstöður um marktæka minnisskerðingu hjá HS hópi þar sem rýrnunarmynstur ætti að benda til óskerts minnis draga einnig í efa hæfni greiningar segulómunar á vitrænni skerðingu.

Samþykkt: 
 • 16.5.2022
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/41244


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS_HerdisEvaHermannsdottir.pdf999.94 kBLokaður til...13.05.2024HeildartextiPDF
Yfirlysing_HEH.pdf286.18 kBLokaðurYfirlýsingPDF