is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/41245

Titill: 
  • Lyfjagjöf um lyfjadælu inn í mænugöng á Íslandi - Umfang og árangur meðferðar við síspennu og langvinnum verkjum
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Síspenna (e. spasticity) er afleiðing skaða á efri hreyfitaugungum miðtaugakerfis, hvort sem er í heila eða mænu, svonefnt efra hreyfitaugungaheilkenni (e. upper motor neuron syndrome). Hófleg síspenna getur verið gagnleg, til dæmis við gang, en yfirleitt veldur hún umtalsverðri fötlun og óþægindum. Markmið þessarar rannsóknar er að kanna árangur lyfjagjöf, einkum síspennulækkandi lyfja, um dælu inn í mænugöng.
    Efniviður og aðferðir: Lyfjagjöf með lyfjadælu í mænugöng hófst á Íslandi í mars árið 2000. Síðan þá hafa alls 62 einstaklingar fengið dælu, 44 þeirra eru enn á lífi. Þeir eru í reglulegu eftirliti ásamt áfyllingu á dælu á eftirfarandi deildum; Grensásdeild LSH, Barnaspítala Hringsins og Verkjateymi LSH. Af þeim 62 eru 55 sjúklingar sem ekki hafa svarað ásættanlega annarri meðferð við síspennu og því fengið ígræðslu dælu til lyfjagjafar baklofens inn í mænugöng. Á síðustu árum hafa sjö sjúklingar með illviðráðanlega langvinna verki fengið lyfjadælu. Heilsufar sjúklinga fyrir og eftir dæluísetningu var metið með greiningu gagna úr sjúkraskrá. Spurningalisti var lagður fyrir þátttakendur til þess að kanna upplifun þeirra. Samanburður var gerður á lyfjagjöf með samfelldu flæði (e. simple continuous mode, SCM) og bólsturskammtaflæði (e. pulsatile bolus infusions, PBI) með tilliti til skammtastærða og árangurs.
    Niðurstöður: Rannsóknarþýðið var alls 62 sjúklingar, 27 konur og 35 karlar. Þar af voru 60 fullorðnir og tvö börn. Meðalaldur var 46 ár (7 - 89 ára). Algengustu greiningar voru meðfædd heilalömun (e. cerebral palsy), heila- og mænusigg (e. multiple sclerosis), mænuskaði, heilablóðfall og langvinnir verkir. Svör fengust hjá 50% þátttakenda. Af 28 þátttakendum sem fengu dælu vegna síspennu töldu 22 dæluna hafa góð áhrif á síspennuna og 16 upplifðu minni verki. 25 lýstu miðlungs til mjög mikið bættri líðan. 64% af þeim 22 sem ekki voru með alskaða á mænu lýstu mikið bættri hreyfigetu. Mat fyrir og eftir að meðferð hófst sýnir greinilega marktæka minnkun síspennu. Alls fengu 73% sjúklinga fylgikvilla. Algengastir voru fráhvarfsheilkenni baklofens (18 tilvik) og mænuvökvaleki (14 tilvik). Sjúklingar með langvinna verki voru sjö, einungis þrír þeirra gáfu svör sem voru mjög mismunandi og því ekki hægt að álykta um gildi meðferðar hjá þeim.
    Ályktanir: Lyfjagjöf í mænugöng er öflug en alls ekki hættulaus meðferð. Hún krefst talsverðs eftirlits og sérþekkingar. Alls mæltu 97% aðspurðra þátttakenda með þessari meðferð fyrir einstaklinga í sambærilegri stöðu, þrátt fyrir að 58% þeirra hafi fengið aukaverkanir, sem í nokkrum tilvikum (einkum baklofen fráhvarfsheilkennið) geta verið lífshættulegar. Þetta meðferðarform hefur verulega bætt líðan hjá mörgum sjúklingum sem ekki svöruðu neinni annarri meðferð. Margt bendir til að þetta sé vannýtt meðferðarform á Íslandi.

Samþykkt: 
  • 16.5.2022
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/41245


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lyfjagjöf um lyfjadælu inn í mænugöng á Íslandi - Elísabet Tara - BS ritgerð 2022 (1) (1).pdf2.85 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Lokaverkefni Elísabet Tara Guðmundsdóttir Háskólabókasafn 13.05.0222.pdf321.85 kBLokaðurYfirlýsingPDF