is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/41256

Titill: 
 • Kóagúlasa neikvæðir stafýlókokkar í blóði á Landspítala: Afturvirk rannsókn á blóðsýkingum á tímabilinu 2017-2020
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Kóagúlasa neikvæðir stafýlókokkar (e. coagulase negative staphylococci, CoNS) eru hluti af eðlilegri húð- og slímhúðarflóru mannsins og því oft taldir vera mengunarvaldar þegar bakteríurnar ræktast úr blóði. Þeir eru þó tækifærissýklar og algengir sýkingarvaldar í sjúkrahústengdum blóðsýkingum hjá fullorðnum einstaklingum, sérstaklega í tengslum við íhluti. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða faraldsfræði blóðsýkinga af völdum CoNS á Landspítala og hlut mengaðra blóðræktana á meðal sjúklinga með CoNS í blóði.
  Efniviður og aðferðir. Rannsóknin var afturvirk og byggði á jákvæðum blóðræktunum, þar sem eingöngu ræktuðust CoNS, dregnum á Landspítala á tímabilinu 2017-2020. Rannsóknarþýðið samanstóð af sjúklingum (≥ 18 ára) sem áttu a.m.k. tvær jákvæðar CoNS blóðræktanir með sömu CoNS tegund á 48 klst. tímabili (eitt blóðræktunartilfelli). Stuðst var við mat meðferðaraðila og skilgreiningu Centers for Disease Control and Prevention þegar aðgreina átti CoNS blóðsýkingartilfelli frá mengunartilfellum. Upplýsingum var safnað úr þjónustugagnagrunni Sýkla- og veirufræðideildar og sjúkraskrárkerfi Landspítalans.
  Niðurstöður. Rannsóknarþýðið samanstóð af 98 sjúklingum (47% konur) sem áttu samtals 106 blóðræktunartilfelli. Þar af áttu 45 sjúklingar (44% konur) samtals 52 CoNS blóðsýkingartilfelli og 53 sjúklingar áttu samtals 54 mengunartilfelli. Meðalaldur sjúklinga með CoNS blóðsýkingu var 64 (±15) ár. Meirihluti þeirra (65%) hafði illkynja sjúkdóm. Í 40 (77%) blóðsýkingum höfðu sjúklingar miðlægan bláæðalegg við fyrstu jákvæðu CoNS blóðræktun og margir voru á ónæmisbælandi meðferð (n = 34; 65%) og/eða sýklalyfjum (n = 20; 38%). Enginn sjúklingur lést af völdum CoNS blóðsýkingar í þessari rannsókn. Flestar hinna 52 CoNS blóðsýkinga (73%) greindust á bráðamóttöku og lyflækningadeildum, einkum blóðlækningadeild. Átta CoNS tegundir ræktuðust í blóðræktunartilfellunum en aðeins fimm töldust sýkingarvaldar. S. epidermidis var algengasti sýkingarvaldurinn (n = 45; 87%) og S. hominis var algengasti mengunarvaldurinn (n = 28; 52%). Alls voru 53% CoNS einangra úr blóðræktunartilfellum ónæm fyrir oxasillíni, þar af 72% S. epidermidis einangra, en ekkert einangranna var ónæmt fyrir vankómýsíni. Sjúklingar með jákvæðar CoNS blóðræktanir á rannsóknartímabilinu töldu 1.259 og samkvæmt skilgreiningum rannsóknarinnar reyndist afar lítill hluti þeirra hafa blóðsýkingu, eða einungis 45 (tæplega 4%).
  Ályktanir. CoNS blóðsýkingar sáust einkum hjá þekktum áhættuhópum og sýklalyfjaónæmi var útbreitt líkt og aðrir hafa lýst. Hlutfall sýktra var lágt og töldust meira en 96% sjúklinga með jákvæðar blóðræktanir hafa CoNS mengun. Mengaðar blóðræktanir eru kostnaðarsamar fyrir heilbrigðiskerfið og geta stuðlað að óþarfa sýklalyfjameðferð og sýklalyfjaónæmi. Búist er við að niðurstöður þessarar rannsóknar geti nýst til að hnykkja á verklagi við sýnatökur fyrir blóðræktanir.

Samþykkt: 
 • 16.5.2022
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/41256


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BSritgerð_ylfadogg_LOKA.pdf1.09 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
May 13, 2022 Doc.pdf366.25 kBLokaðurYfirlýsingPDF