is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/41271

Titill: 
 • Blóðkalsíumhækkun í fólki með góðkynja einstofna mótefnahækkun
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Blóðkalsíumhækkun er eitt af greiningarskilmerkjum mergæxlis og því er kalsíum mælt reglulega í einstaklingum með góðkynja einstofna mótefnahækkun (e. monoclonal gammopathy of undetermined significance (MGUS). Ekki er vitað hvort aðrar orsakir fyrir hækkuðu kalsíum í blóði séu sjaldgæfari í einstaklingum með forstig mergæxlis en í almennu þýði. Markmið þessarar rannsóknar voru að kanna orsakir blóðkalsíumhækkunar í fólki með MGUS og hvaða önnur einkenni með blóðkalsíumhækkun tengjast virku mergæxli.
  Efniviður og aðferðir: Nú stendur yfir lýðgrunduð skimunarrannsókn á einstaklingum með mergæxli og MGUS, Blóðskimun til bjargar, þjóðarátak gegn mergæxlum. Þýði þessarar rannsóknar eru þeir þátttakendur sem eru í eftirliti vegna MGUS í Blóðskimun til bjargar og hafa einhvern tímann mælst með blóðkalsíumhækkun. Farið var inn í sjúkraskrár einstaklinga úr þýðinu og leitað eftir greiningu á hækkuninni. Vafamál voru borin undir innkirtlasérfræðing. Ef mergæxli reyndist vera orsök blóðkalsíumhækkunarinnar var skráð niður hvort önnur greiningarskilmerki mergæxlis væru til staðar.
  Niðurstöður: Úrtak rannsóknarinnar samanstóð af 148 einstaklingum, þar af voru 72 sannarlega með blóðkalsíumhækkun (48,6%). Af því leiðir að rúmur helmingur þeirra einstaklinga sem voru skoðaðir reyndust ekki vera með viðvarandi blóðkalsíumhækkun. Algengasta orsök blóðkalsíumhækkunar var frumkomið kalkvakaóhóf (58,6%). Næst á eftir var blóðkalsíumhækkun vegna illkynja sjúkdóma, þar með talið mergæxlis (20,7%). Tilfelli þar sem orsök blóðkalsíumhækkunar hafði ekki verið greind voru 14 (19,4%). Aðeins þrír einstaklingar reyndust vera með blóðkalsíumhækkun sökum mergæxlis (5,2%) en í öllum tilfellum voru önnur greiningarskilmerki krabbameinsins einnig til staðar.
  Ályktanir: Algengustu orsakir blóðkalsíumhækkunar í fólki með MGUS voru í takt við það sem sést hefur í almennu þýði. Mikill minnihluti þeirra sem höfðu blóðkalsíumhækkun reyndust vera með mergæxli og af þeim var enginn með einangraða blóðkalsíumhækkun. Þegar blóðkalsíumhækkun mælist í fólki með MGUS ætti að endurtaka mælinguna og ganga úr skugga um að frumkomið kalkvakaóhóf sé ekki orsökin áður en sjúklingur er sendur í rannsóknir fyrir greiningu á illkynja sjúkdómum, þar með talið mergæxli.

Samþykkt: 
 • 16.5.2022
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/41271


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS-Astrun_Helga_Jonsdottir.pdf1.49 MBLokaður til...01.06.2024HeildartextiPDF
ÁHJ_skemman_yfirlysing.pdf907.06 kBLokaðurYfirlýsingPDF