Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/41282
Stöðugar framfarir eru í myndgreiningarrannsóknum. Stöðugt er verið að þróa nýjar aðferðir til að halda geislaskömmtum sem minnstum. Of stór geislaskammtur getur valdið vísum sköðum en þeir geislaskammtar sem er langoftast notaðir við röntgenmyndatöku geta valdið slembisköðum sem geta haft neikvæð áhrif á sjúklinginn í framtíðinni, líkurnar eru afar litlar en ávallt til staðar. Innstilling og myndgæði skipta miklu máli þegar kemur að geislaálagi. Þegar innstillingar eða myndgæði eru ekki nógu góð getur þurft að endurtaka myndina en það veldur auknu geislaálagi á sjúklinginn. Til að halda geislaálagi í lágmarki gæti verið ráðlegt að styðjast við lágskammta myndir til að finna réttu innstillinguna. Lágskammta myndir eru myndir með fáum ljóseindum sem sýna útlínur beina vel en greiningargildi þeirra eru ekki næg og þær því aldrei sendar til úrlestrar.
Markmið: Markmið rannsóknar er að skoða fjölda mynda í úrkasti, endurtekningu mynda og notkun lágskammtamynda við röntgenrannsóknir af olnboga. Niðurstöður rannsóknarinnar munu vonandi nýtast til að bæta myndgæði í röntgenrannsóknum af olnboga og lækka á sama tíma geislaskammta á sjúklinga í þeim rannsóknum. Fá sjúklingar marktækt lægri geislaskammta við röntgenmyndartökur af olnboga ef stuðst er við lágskammta myndir í rannsókn?
Efni og aðferð: Rannsóknin var framkvæmd á þremur röntgenstofum á Landspítalanum í Fossvogi. Um er er ræða afturvirka megindlega rannsókn sem gerð var fyrir tímabilið 1. janúar til 28. febrúar 2022. Gögn voru skoðuð úr röntgentækjum af gerðinni ADORA. Gögnin voru flokkuð í lágskammta myndir í úrkasti, fullgeislaðar myndir í úrkasti og fullgeislaðar myndir með tilliti til geislaskammta. Fundin var út geislun sem ekki nýttist til greiningar í prósentum fyrir lágskammta-, fullgeislaðar myndir og samanlögð geislun fyrir hvort tveggja í rannsóknum.
Tvíhliða T-próf var notað til að kanna mun á meðaltali milli rannsókna sem styðjast við lágskammta myndir og rannsókna með auka fullgeislaðar myndir ýmist til úrlestrar og/eða í úrkasti.
Niðurstöður: Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að innan við 40% af röntgenrannsóknum á olnboga heppnast í fyrstu tilraun án endurtekninga og hafa því enga auka geislun. Um það bil 45% af röntgenrannsóknum eru með auka geislaálag vegna fullgeislaðra mynda í úrkasti og auka innsendum myndum sem sendar voru til greiningar. Einungis 15% rannsókna notuðust við lágskammta myndir.
Ályktun: Hægt er að minnka geislaálag í olnbogarannsóknum með að því að notast við lágskammta myndir og þá aðallega í hliðarmyndum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Diplóma - prentun.pdf | 918.79 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlýsing - undirrituð.pdf | 290.07 kB | Lokaður | Yfirlýsing |