Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/41294
Hjartsláttaróregla er algengur heilsufarskvilli og er gáttatif algengasta tegund hjartsláttaróreglu. Tíðni gáttatifs eykst með hækkandi aldri og með hækkandi meðalaldri er því spáð að tíðni gáttatifs aukist enn frekar á komandi árum. Gáttatif getur verið einkennalaust og greinst seint ásamt því að einkenni versna með tímanum.
Fylgikvillar gáttatifs eru ýmsir en það eykur líkur á heilaslagi, hrumleika, byltum, fylgikvillum annarra sjúkdóma, heilabilun sem og andláti í tengslum við hjarta- og æðasjúkdóma.
Horfur fólks sem fær heilaslag eru verri ef það glímir einnig við gáttatif en það lengir sjúkrahúslegu samhliða því að almenn þekking á hættum gáttatifs er ekki viðunandi. Blóðþynning er lykilþáttur í meðferð gáttatifs til þess að draga úr fylgikvillum þess. Lyfjameðferð er stærsti hluti meðferðar við gáttatifi, bæði blóðþynning og til að stjórna takti og hraða hjartans. Aðrar meðferðir eru brennslu- og frystimeðferð ásamt rafvendingu en þær meðferðir eru notaðar til þess að koma fólki í takt og sem einkennameðferð.
Tilgangur: Að gera lesenda ljóst hvað gáttatif er, hvernig það er meðhöndlað og áhrif þess á einstaklinginn sem og heilbrigðiskerfið með tilliti til kostnaðar. Einnig að kanna hagkvæmni skimunar í ljósi aukinnar tíðni gáttatifs og kostnaðar þess.
Aðferð: Verkefnið er fræðileg samantekt. Heimildum var safnað á tímabilinu janúar 2022 til apríl 2022, meðal annars á vefsíðunum pubmed, scopus, google scholar, chinal o.fl. Notuð voru gögn á íslensku og ensku.
Niðurstöður: Lönd eins og Danmörk og Bretland áætla að kostnaður vegna gáttatifs sé um 1% af heildarútgjöldum heilbrigðiskerfisins og fari hækkandi með aukinni tíðni sjúkdómsins. Kostnaður vegna gáttatifs snýr að meðferð, eftirfylgni, lyfjakostnaði og notkun á spítalaþjónustu. Einstaklingar með gáttatif eyða hlutfallslega meiri fjármunum í heilbrigðisþjónustu en aðrir. Kostnaður meðferðar er þó lítill samanborið við afleiðingar gáttatifs.
Horfur einstaklingar með gáttatif eru verri í sjúkrahúslegu. Þeir liggja lengur á spítala, hafa hærri tíðni heilabilunarsjúkdóma, hrumleika og auknar líkur á fylgikvillum annarra sjúkdóma samhliða því að dánartíðni þeirra er hærri. Skimanir fyrir gáttatifi hafa ekki mikið verið gerðar á Íslandi. Misræmi er í heimildum um hvort skimanir fyrir gáttatifi séu hagkvæmar. Þó er talið að hagkvæmt sé að skima einstaklinga 65 ára og eldri.
Ályktanir: Gáttatif er vaxandi vandamál með hækkandi aldri þjóðarinnar. Heimildir eru fyrir því að gáttatif kosti heilbrigðiskerfi töluvert fjármagn og að á komandi árum muni sá kostnaður aukast. Fylgikvillar gáttatifs geta valdið aukinni þörf á sérhæfðum úrræðum í tengslum við endurhæfingu, heilabilun og aukna notkun heilbrigðisþjónustu. Það hefur sýnt sig að skimanir borgi sig þegar sjúklingar hafa náð 65 ára aldri. Það má því álykta að draga megi úr álagi, kostnaði og þörf fyrir sérhæfðum úrræðum vegna gáttatifs. Auka þarf fjármagn til heilbrigðiskerfisins til þess að raunhæft sé að skima fyrir gáttatifi. En borgar það sig fyrir heilbrigðiskerfið sem og einstaklinginn?
Lykilorð: Gáttatif, kostnaður, hjartsláttaróregla.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
bs-lokaloka-útg (1).pdf | 658.39 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman_yfirlysinghehe.pdf | 277.49 kB | Lokaður | Yfirlýsing |