Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/41325
Inngangur: Rannsóknir hafa sýnt fram á auknar líkur á ýmsum vandamálum og inngripum í fæðingu hjá sumum hópum innflytjenda miðað við innfædda, þar á meðal aukna áhættu á bráðakeisaraskurði. Hlutfall fæðinga kvenna af erlendum uppruna hefur aukist úr 2% árið 1997 í 17% árið 2020. Vegna mikillar fjölgunar kvenna af erlendum uppruna er mikilvægt að kanna hvort munur sé á inngripum í fæðingar þeirra og íslenskra kvenna á Íslandi. Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er lýðgrunduð ferilrannsókn byggð á gögnum úr Fæðingaskrá á tímabilinu 1997-2020 (N=104.697). Konur af erlendum uppruna voru skilgreindar sem konur sem ekki höfðu íslenskt ríkisfang þegar einhver fæðinga þeirra átti sér stað (N=10.409). Konum af erlendum uppruna var skipt í þrjá flokka eftir Human Development Index stigum upprunalands. Skoðuð var skipting í Robson hópa eftir uppruna og innan hópa hlutfall framkallana og fæðingarmáti. Við greiningu gagna var reiknað hlutfall og tíðni, gerðar krosstöflur og kí-kvaðrat próf. Marktækni var miðuð við p < 0.05.
Niðurstöður: Mismunur í stærð Robson hópa endurspeglaði að marktækt fleiri konur af erlendum uppruna voru frumbyrjur og að tíðni framköllunar á fæðingu reyndist lægri hjá bæði frumbyrjum og fjölbyrjum (Robson hópar 1 / 2 annars vegar og 3 / 4 hins vegar. Hjá bæði frumbyrjum og fjölbyrjum (Robson hópar 1 og 3) af erlendum uppruna með lægri Human Development Index stig upprunalands (< 0,900) var tíðni áhaldafæðinga aukin auk þess sem að tíðni bráðakeisaraskurða var aukin hjá konum með lægstu Human Development Index stig upprunalands (< 0,850). Hjá konum með ör á legi eftir fyrri keisaraskurð (Robson hópur 5) var tíðni áhaldafæðinga og bráðakeisaraskurða aukin hjá konum af erlendum uppruna og því hærri sem Human Development Index stig upprunalands var lægri. Samsvarandi var tíðni eðlilegra fæðinga um leggöng og valkeisaraskurða lægri. Ályktun: Fæðingum kvenna af erlendum uppruna hefur fjölgað hérlendis og miðað við innfæddar konur eru þær frekar frumbyrjur. Fæðingar þeirra eru síður framkallaðar og þeim lýkur oftar með áhöldum eða bráðum keisaraskurði. Þessi munur er því meiri sem Human Development Index stig upprunalands eru lægri. Mikilvægt er að leita skýringa hvers vegna konur af erlendum uppruna eru ólíklegri en innfæddar til að fæða eðlilega um leggöng.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Inngrip í fæðingar kvenna af erlendum uppruna.pdf | 990,94 kB | Open | Complete Text | View/Open | |
yfirlýsing.pdf | 285,77 kB | Locked | Declaration of Access |