Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/41411
Inngangur: Rotator cuff sinamein er algengt vandamál í öxl. Einkenni rotator cuff sinameina lýsa sér oft sem verkir og kraftminnkun við ákveðnar hreyfingar sem afleiðing of mikils álags á sinar rotator cuff vöðva. Það eru margar íhaldssamar meðferðir sjúkraþjálfara sem hafa verið notaðar til að meðhöndla vandamálið en óljóst er hvaða meðferðir sýna besta árangurinn.
Markmið: Markmið rannsóknarinnar er að gera “scoping” samantektarrannsókn og taka saman þær kerfisbundnu samantektir sem hafa verið gerðar á íhaldssömum meðferðum sjúkraþjálfara sem notaðar hafa verið við rotator cuff sinameinum. Markmiðið er að komast að því hvaða meðferðir sýna bestan árangur. Rannsóknarspurning þessa verkefnis er því: Hvaða meðferðir sjúkraþjálfara sýna bestan árangur við rotator cuff sinameinum?
Aðferð: Leitað var í gagnagrunnum Web of science, PubMed og Science direct af kerfisbundnum yfirlitsgreinum sem fjölluðu um íhaldssamar meðferðir sjúkraþjálfara við rotator cuff sinameinum. Yfirlitsgreinarnar þurftu að vera á ensku eða íslensku og birtar eftir 1. janúar 2010. Einstaklingar í rannsóknum yfirlitsgreinanna þurftu að vera með greininguna rotator cuff sinamein eða aðra sambærilega greiningu. Yfirlitsgreinar sem innihéldu rannsóknir þar sem einstaklingar voru með önnur axlarvandamál svo sem rotator cuff slit, frosna öxl eða slitgigt voru útilokaðar. Notast var við AMSTAR gátlistann til að meta gæði yfirlitsgreinanna.
Niðurstöður: Við leitina komu upp 2088 greinar en 17 þeirra uppfylltu inntökuskilyrði “scoping” samantektarrannsóknarinnar. Gæði þessarra 17 greina voru metin með AMSTAR gátlistanum. Níu greinar uppfylltu ekki gæðastaðla og voru því útilokaðar. Þá stóðu átta greinar eftir sem voru notaðar í rannsóknina. Niðurstöður yfirlitsgreinanna sem uppfylltu inntökuskilyrði sýndu fram á vísbendingar um að æfingameðferð sýni bestan árangur við rotator cuff sinameinum, ekki er þó ljóst hvers konar æfingar séu bestar og í hvaða magni. Misvísandi niðurstöður voru um áhrif TENS, PEMF, hljóbylgja, laser meðferða og örbylgju hitameðferðar á rotator cuff sinamein. Takmarkaðar niðurstöður eru um áhrif teipinga og nálastungna.
Samantekt: Fáar hágæða rannsóknir fundust við leit greina. Æfingameðferð virðist sýna besta árangurinn en þörf er á fleiri hágæða rannsóknum sem skoða hvers konar æfingar séu bestar og í hvaða magni þær ættu að vera.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MS ritgerð LOKA eintak.pdf | 847.92 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlýsing.pdf | 2.91 MB | Lokaður | Yfirlýsing |