is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/4148

Titill: 
  • Hulda: Sjálfstjáning kvenna á 18. og 19. öld
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Úr fórmála: Rannsóknarsaga: Það var á haustmánuðum árið 2000, í námskeiði um Jörund hundadagakonung, sem ég komst í fyrsta skipti í snertingu við handrit í rannsóknum mínum. Námskeiðið fjallaði um sumarið 1809 þegar Jörundur hundadagakonungur var á Íslandi og lokaverkefnið fólst í að vinna með handrit á Þjóðskjalasafninu frá tímum Jörundar á Íslandi. Óhætt er að segja að þessi fyrsta heimsókn á Þjóðskjalasafnið hafi haft örlagarík áhrif á mig sem sagnfræðing því að alla tíð síðan hef ég verið heilluð af handritaheiminum. Það var Anna Agnarsdóttir prófessor í sagnfræði sem kenndi námskeiðið um Jörund og hjálpaði mér þessi fyrstu skref inn á Þjóðskjalasafnið. Án hennar stuðnings hefði ég sennilega aldrei haft kjark né þor til að sækja mér heimildir á safnið. Þjóðskjalasafn Íslands er staðsett í gömlu Mjólkurstöðinni ofarlega á Laugarveginum en þangað var það flutt eftir að hafa sprengt af sér fyrrum húsnæði í gamla safnahúsinu við Hverfisgötu. Fáu virðist hafa verið breytt þar innandyra og engu líkara en að tækjum og tólum mjólkurframleiðslunnar hafi einfaldlega verið mokað út og handritunum komið fyrir. Allar vistarverur gömlu Mjólkursamsölunnar eru fullnýttar undir þessi handrit þjóðarinnar, allt frá snyrtilegum mjólkurkælum til hrárra vinnslusala mjólkurafurða. Lesaðstaða Þjóðskjalasafnsins, sú hlið sem snýr að gestum safnsins, er einstaklega kuldaleg enda staðsett í gamalli ísbúð Mjólkursamsölunnar. Húsnæði þess hefur lítið verið breytt að undanskildum virðulegum bókahillum sem þar hefur verið komið fyrir, stútfullum af hverskyns handbókum um ættfræði- og byggðasögu. Heimildaleit á Þjóðskjalasafninu er mjög flókin og nær ógerningur að nýta sér safnkostinn öðruvísi en með hjálp starfsmanna. Ótal möppur með margslungnu númerakerfi vísa á hin og þessi söfn sem sárafáir kunna skil á nema starfsfólk safnsins sem er þó ætíð reiðubúið að veita gestum safnsins aðstoð. Þjóðskjalasafnið er því sannkallað völundarhús sem auðvelt er að týnast í. Í námskeiðinu um Jörund hundadagakonung valdi ég að skoða tiltekið mál úr skjalasafni danska kansellísins sem fjallaði um skilnaðarmál fátækra hjóna í Skaftafellssýslu. Hjón þessi vildu fá leyfi til að skilja svo að bóndinn gæti gifst ráðskonu sinni. Á þessum tíma var íslenskum hjónum bannað samkvæmt lögum að skilja en Danakonungur gat þó veitt þeim undanþágu frá lögunum. Skilnaðarmál hjónanna hafði staðið yfir í fjölda ára án árangurs. Ég ákvað að skoða hvað orsakaði þessa töf og hvers vegna hjónin sóttu svo stíft að fá leyfi til að skilja. Fjöldi bréfa hafði varðveist vegna málsins í skjalasafni konungs. Ég hafði úr nægum heimildum að moða. Bæði voru þarna bréf frá hjónunum sjálfum sem og íslenskum og dönskum yfirvöldum. Það var ótrúleg tilfinning að fara höndum um þennan gulnaða pappír sem lyktaði af löngu liðnum tíma. Meðal annars voru þetta þéttskrifaðir blaðsneplar sem bóndinn sjálfur hafði skrifað til konungs. Textinn einkenndist af miklum undirlægjuhætti við hið danska yfirvald og endalausum barlóm um fátækt og eymd fjölskyldunnar. Þarna var einnig að finna þykk pappírshandrit með háfleygri skrautskrift konunglegra embættismanna. Þar var knappur textinn innrammaður af breiðum spássíum og gaf skýr fyrirmæli grundvölluð á dönskum lagabókstaf. Virðulegu innsigli konungs hafði verið þrykkt ofaní rautt vaxið á bréfinu til staðfestingar á uppruna þess. Við lestur handritanna fannst mér sem ég yrði beinlínis þátttakandi í þessu erfiða skilnaðarmáli. Öll hugsun mín snerist um líf þessa fátæka fólks og með því að fylgja þeim eftir ár fyrir ár með hjálp prestþjónustubóka og sóknarmannatala náði ég að skilja betur ástæður skilnaðarins og af hverju hann skipti þau svo miklu máli. Sagan er í stuttu máli þessi: Aðstæður þessara hjóna voru erfiðar, eiginkonan hafði misst sjónina og var orðin mjög veik þegar þau sóttu um skilnaðarleyfið. Ráðskona á heimilinu hafði tekið að sér að annast börn þeirra, séð um allt heimilishald og veitt rúmfastri konunni aðhlynningu. Án hennar hefði heimilið orðið bjargþrota og opinber yfirvöld krafist þess að veik konan og börn þeirra yrðu sett niður á sveitina. Til að koma í veg fyrir upplausn fjölskyldunnar vildi bóndinn freista þess að fá leyfi til að giftast ráðskonunni en jafnframt að annast dauðvona konu sína á heimilinu. Þar með væri ráðskonunni tryggð framtíðarvist á bænum og fjölskyldan gæti búið saman þrátt fyrir veikindi húsmóðurinnar. Í þessu verkefni lærði ég að meta mikilvægi þess að hafa aðgang að heimildum, að fá tækifæri til að lesa þessi gömlu og snjáðu handrit og skynjaði líka hvað svona lítil brot geta sagt mikið um fortíðina. Eftir þessa reynslu var ekki aftur snúið og ég varði löngum stundum við áhugaverðar rannsóknir á Þjóðskjalasafni Íslands. Þegar ég hóf nám á M.A. stigi í sagnfræði ákvað ég fljótlega að ég vildi einbeita mér að handritum eftir konur með það í huga að rannsaka sjálfstjáningu þeirra. Í námi mínu hafði ég kynnst nokkuð persónulegum heimildum og notkunarmöguleikum þeirra. Fyrirliggjandi rannsóknir höfðu þó leitt í ljós að langmest væri til af sjálfsbókmenntum karla og mun minna var til eftir konur. Handritaheimurinn hafði hins vegar alls ekki verið kannaður með nákvæmum hætti. Ég var sannfærð um að þar væri að finna mörg handrit frá konum sem áhugavert væri að draga fram og rannsaka. Ég vildi ráðast í að útbúa einhverskonar gagnasafn sem gæti nýst mér sem tæki til að fjalla um sjálfstjáningu kvenna á 18. og 19. öld og bera hana saman við þá opinberu mynd sem jafnan væri dregin upp af konum. Sú ákvörðun átti eftir að reynast mér afdrifarík, því í hönd fór margra ára rannsókn með útúrdúrum og stefnubreytingum. Í fyrsta skiptið sem ég fór á handritadeild Landsbókasafns Íslands vissi ég fátt um hvernig safnið væri uppbyggt. Mér fannst erfitt að fóta mig þar ein og óstudd. Lesstofan þar er ákaflega hlý og notaleg og ekkert lík lesstofunni eða „ísbúðinni“ á Þjóðskjalasafninu eins og hún er stundum nefnd. Mér létti líka ákaflega þegar starfsmaður safnsins benti á sjö fallega innbundnar bækur sem hann sagði að væru skrár yfir þau handrit sem varðveitt væru á handritadeildinni. Þetta voru handritaskrár Landsbókasafnsins og við nánari skoðun virtust þær einnig innihalda lýsingu á handritunum sem þar voru skráð sem ætti að geta auðveldaði mikið alla leit að heimildum í safninu. Eftir að ég hafði kynnt mér uppbyggingu handritaskránna komst ég þó að því að erfitt er að leita þar eftir ýmsum áhugaverðum efnisflokkum eins og handritum kvenna. Ég sá í hendi mér að nauðsynlegt væri að fara markvisst í gegnum þær allar og skrá niður handrit sem tengdust konum í skránum. Í þeirri vinnu, sem tók langan tíma og útheimti mikla yfirlegu, varð mér ljóst að jafnvel þótt handritaskrárnar auðveldi fræðimönnum heimildaleit í safninu skyggja þær einnig á mörg handrit í vörslu handritadeildar. Með nokkurri einföldun má segja að konur hafi reynst nánast ósýnilegar í handritaskránum. Verk þeirra sem þar var að finna voru afar illa skráð. Verkefnið sem ég hafði tekið mér fyrir hendur varð skyndilega óviðráðanlegt, svo mikil vinna var fólgin í gerð gagnasafnsins. Að lokum tókst að berja hann saman og við það hafði ég í höndum tæki sem reyndist mér dýrmætt í rannsóknarvinnunni sem framundan var. Þar með var ákveðinni forvinnu fyrir ritgerðina lokið en um leið tók hún nýja og óvænta stefnu. Þegar í ljós kom hvernig væri komið fyrir handritum margra kvenna, þau á stundum „falin“ í handritapökkum sem kenndir voru við karla, varð mér ljóst að nauðsynlegt væri að kanna grundvöll handritaskráningarinnar. Á hvaða hugmyndafræði handritadeildin væri grundvölluð og eftir hvaða reglum hafi verið unnið nær alla 20. öldina. Mér lék, með öðrum orðum, forvitni á að vita hvert markmið þeirra sem sömdu handritaskrárnar hafi verið með því að varðveita og skrá frásagnir af konum sem þar er að finna og hvaða merkingu væri hægt að leggja í flokkunarkerfi þeirra og annarra fræðimanna frá sama tíma. Í ritgerðinni reyni ég að opna þessar handritaskrár og lýsa því hvernig þær komu mér fyrir sjónir en þær endurspegla sannarlega ekki þann mikla fjölda handrita sem varðveittur er frá konum á safninu. Þegar sú ákvörðun lá fyrir að ég myndi leggjast í rannsókn á uppbyggingu handritadeildar var ljóst að mig hafði borið nokkuð af leið frá upphaflegri rannsóknaráætlun. Ég var með í höndunum gríðarlega stórt gagnasafn sem varð kveikjan að hinni nýju áherslu. Á meðan á rannsókninni stóð höfðu komið upp í hendur mínar mörg athyglisverð mál sem ég hafði áhuga á að kanna. Í samráði við leiðbeinanda minn ákvað ég að rannsaka aðeins eitt slíkt mál með það í huga að sýna fram á hvernig efni þess hafði verið flokkað í handritadeildinni. Einnig hvernig unnið hafði verið með það fyrr á öldinni á opinberum vettvangi og hvaða möguleika það gæfi til að varpa ljósi á konur og veruleika þeirra á tímabilinu sem rannsóknin náði til. Síðasti kafli ritgerðarinnar er helgaður umfjöllun um alþýðukonuna Guðrúnu Ketilsdóttur og þar beiti ég aðferðum einsögunnar á handrit sjálfsævisögunnar. Með þessu skrefi var ákvörðun tekin um að ráðast í þriðja þátt ritgerðarinnar til þess að hægt væri að bregða skýru ljósi á konur frá fyrri tíð og hvernig háskólasamfélagið hefur fjallað um þær á sínum vettvangi. Ritgerðin samanstendur því af þremur þáttum: Í fyrsta lagi gagnasafninu sem ég vann úr handritaskránum, í öðru lagi rannsókn á þeirri hugmyndafræði sem handritadeildin hefur grundvallast á nær alla 20. öldina og loks þessu einstaka máli Guðrúnar Ketilsdóttur sem afhjúpar að mínu viti mikilvægi þess að leitað sé allra leiða til að draga konur fram í dagsljósið. Þessi rannsóknarsaga er á vissan hátt óvenjuleg, meðal annars vegna þess að ég hef unnið með efnið frá árinu 2003 og ákveðið að leyfa ritgerðinni að þróast í samhengi við þær áfanganiðurstöður sem ég hef komist að frá einum tíma til annars. Af þessum sökum er verkið á vissan hátt nokkuð óvenjulegt í laginu ef svo má að orði komast. Það er hins vegar staðföst trú mín eftir að hafa farið í gegnum þessa vinnu að með betra aðgengi að handritaarfinum fái fræðimenn framtíðar ómetanlegt verkfæri í hendur sem gefur þeim nýja og betri innsýn inn í hugarheim forfeðra okkar.

Athugasemdir: 
  • Ritgerðin er lokuð þar til í janúar 2020
Samþykkt: 
  • 11.2.2009
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/4148


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Gudny_Hallgrimsd_fixed.pdf1.89 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna