Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/41647
Endurheimt vistkerfa á Hekluskógasvæðinu sem hófst formlega árið 2007, er eitt stærsta endurheimtarverkefni hér á landi. Þar er tekið á lykilvandamálum jarðvegsrofs með skógrækt og þannig stuðlað að því að draga úr öskufoki, stuðla að bættri vatnsmiðlun og bindingu kolefnis. Hekluskógaverkefnið hefur aukið þekkingu og reynslu af landgræðsluskógrækt og er verkefnið fyrirmynd annara verkefna, sem hafin eru og stefnt er að hefjist, víðs vegar um land.
Hekluskógasvæðið er umfangsmikið og nær yfir 100 þúsund hektara svæði. Um 30% Hekluskóga var gróið land, víðir óx á helmingi þess lands, en birki var sjaldgæfara þó að víða mætti finna skógartorfur. Um 70% af svæðinu var lítið gróið og á hluta þess var sandfok og mikið rof. Einnig er afréttur innan og utan svæðisins, en einungis var farið í skógrækt á þeim svæðum sem voru beitarfriðuð.
Helstu framkvæmdir verkefnisins eru skráðar svo sem gróðursetning, áburðadreifing og sáning bæði á grösum og birki. Í árlegum úttektum á völdum reitum á svæðinu, sem hófust 2013 eru ýmsir þættir metnir og skráðir, fjöldi trjáplantna og ástand þeirra og hæð. Einnig eru ýmsar umhverfisbreytur skráðar eins og t.d. gróðurlendi, gróðurþekja, samkeppnisgróður, landhalli, hallaátt og hæð yfir sjó.
Í þessari ritgerð er unnið úr þeim gögnum, sem lágu fyrir úr árlegum úttektum, á gróðursettum birkiplöntum í Hekluskógum, og upplýsingar um plönturnar tengdar við hæð yfir sjó og gróðurfar svæðanna ásamt því að skoða sjálfsáningu og afföll innan úttektareita.
Niðurstöður sýna að gerð gróðurlendis og hæð yfir sjávarmáli voru þeir þættir sem skýrðu best breytileika í trjávexti, auk þess sem tíðni fræplantna og tíðni affalla í úttektarreitunum var breytileg eftir hæð yfir sjó.
Meðal þeirra gróðurlenda sem finnast á svæðinu eru lúpínubreiður, en lúpínan virðist hafa fóstrað plönturnar vel. Hæðarvöxtur birkiplantna var mestur með lúpínubreiðum en minnstur vöxtur var á ógrónu landi.
Mestur vöxtur birkiplantna var neðan 300 m h.y.s. Þar fundust trjáplöntur sem voru um og yfir tveir metrar á hæð og drjúgur hluti plantna var um og yfir eins metra háar. Ofan 300 m h.y.s. voru hins vegar flestar plöntur lægri en einn metri. Sjálfsáning birkis var einnig mest í reitum neðan 160 m h.y.s. og ekki fundust neinar sjálfsáðar plöntur innan reita ofan 300 m h.y.s. Afföll á gróðursettum birkitrjám voru tíðust ofan 300 m h.y.s.
iii
Niðurstöður þeirra þátta sem skoðaðir voru í þessari ritgerð gefa vísbendingu um að gróðurfar og hæð yfir sjávarmáli, hafi áhrif á vöxt og lifun gróðursetta birkiplantna og einnig möguleika birkis til að sá sér út.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Áhrif staðhátta og gróðurfars á birkiplöntur í Hekluskógum_HannaBjork.pdf | 639.69 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |