Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/41695
Lítið hefur verið um rannsóknir á því hvað skiptir íslenska fjárfesta mestu máli þegar kemur að því að þeir fjárfesti í sprotafyrirtækjum. Markmiðið með þessari rannsókn var að fá djúpa innsýn í nýsköpunarumhverfið á Íslandi með því að kanna hverjir helstu áhrifaþættir og verkferlar íslenskra vísisjóða og englafjárfesta eru. Niðurstöður rannsóknarinnar voru bornar saman við vísindarit sem hafa sömu sögu að segja um fjárfesta erlendis frá.
Notast var við eigindlega aðferðafræði í rannsókn þessari þar sem djúpviðtöl voru tekin við níu mismunandi fjárfesta sem eiga það sameiginlegt að fjárfesta í sprotafyrirtækjum. Fjárfestarnir voru flokkaðir í englafjárfesta og vísisjóði. Englafjárfestar voru fjórir og vísisjóðir voru fimm talsins. Notast var við hálfstöðluð viðtöl. Rannsakendur skrifuðu viðtölin upp og greindu með litakóðun. Út frá litakóðuninni voru niðurstöður viðtalanna skiptar niður í fjóra kafla, PCDO framework, viðskiptaáætlun, undirbúning fyrir fjárfestingu og aðkomu fjárfestis eftir fjárfestingu.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að vísisjóðir og englafjárfestar horfa fyrst og fremst á teymið eða frumkvöðulinn sem áhrifaþátt. Þeir gera það þó á misjafnan máta. Vísisjóðir vilja sjá ástríðu fyrir verkefninu hjá teyminu en englafjárfestar horfa meira á reynslu og þekkingu teymisins. Vísisjóðir á Íslandi hegða sér líkt og vísisjóðir erlendis en taka jafnvel meira þátt í fyrirtækinu. Englafjárfestar hérlendis eru frábrugðnir englafjárfestum erlendis á þann máta að þeir vilja síður taka mikinn þátt í fyrirtækjunum.
Ritgerð þessi er hagnýt að því leyti að með lesningu hennar geta íslenskir frumkvöðlar fengið innsýn í það hvað skiptir fjárfesta mestu máli þegar kemur að fjárfestingum þeirra í sprotafyrirtækjum og geta þeir því verið betur undirbúnir fyrir fjármögnun. Á heildina litið snýst leikurinn ekki aðeins um fjármögnun eina og sér heldur snýst hann einnig um getu frumkvöðla til þess að búa til virði úr hugmynd. Með getuna að vopni þurfa frumkvöðlar einnig að geta sýnt fram á að hugmynd þeirra sé þess virði að fjárfesta í. Nýsköpunargildi fyrir frumkvöðlana liggur í því að þeir geti nýtt sér upplýsingar úr þessari rannsókn til þess að ná frekari árangri í sínum sprotafyrirtækjum. Hverjir eru helstu áhrifaþættir og verkferlar íslenskra vísisjóða og englafjárfesta þegar kemur að fjárfestingum í sprotafyrirtækjum?
„To me, ideas are worth nothing unless executed. They are just a multiplier. Execution is worth millions.“ -Steve Jobs
Lykilorð: Sprotafyrirtæki, Englafjárfestar, Vísisjóðir, Fjárfestingar, PCDO
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Áhrifaþættir-og-verkferlar-íslenskra-vísisjóða-og-englafjárfesta.pdf | 488,66 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |