Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/4187
Umfjöllunarefni ritgerðarinnar eru þær reglur sem gilda um slit fjármálafyrirtækja samkvæmt ffl., eða nánar tiltekið þær sem varða slitastjórnir sérstaklega. Í lögum nr. 44/2009, um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, er kveðið á um ítarlegar breytingar á XII. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki („ffl.“), sem fjallar um endurskipulagningu fjárhags fjármálafyrirtækja, slit þeirra og samruna við önnur fjármálafyrirtæki. Í kaflanum er nú að finna ýmis nýmæli í íslenskum rétti varðandi slit fjármálafyrirtækja. M.a. er þar mælt svo fyrir, að þegar kveðinn hefur verið upp úrskurður um að taka eigi fjármálafyrirtæki til slita, skuli því skipuð sérstök slitastjórn, sem um gildi reglur um skiptastjóra við gjaldþrotaskipti, samkvæmt lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. („gþl.“), að því leyti sem ekki er mælt fyrir á annan veg í ffl. Af þessu tilefni verður í rigerðinni leitast við að svara eftirfarandi rannsóknarspurningum. Í fyrsta lagi skal kannað hvert hlutverk slitastjórna fjármálafyrirtækja er samkvæmt ffl. Er einnig ætlunin að skoða nánar þær reglur, sem gilda um skilanefndir fjármálafyrirtækja, sem Fjármálaeftirlitið hefur skipað, og hvernig verkaskiptingu slitastjórna og skilanefnda er háttað. Í öðru lagi er markmiðið að athuga, að hve miklu leyti bera megi hlutverk slitastjórna við slitameðferð fjármálafyrirtækja saman við hlutverk skiptastjóra við gjaldþrotaskipti. Í þriðja lagi er ætlunin að rannsaka hvort íslenskar reglur um slitastjórnir og slit fjármálafyrirtækja eigi sér hliðstæðu í lögum erlendra ríkja og hvort þær geti komið að gagni við umfjöllun á sviði íslensks gjaldþrotaskiptaréttar. Í fjórða lagi skal loks skoðað hvort eitthvað megi betur fara í ákvæðum ffl. og gþl. varðandi slitameðferð fjármálafyrirtækja, og þá með hvaða hætti. Til þess að leita svara við þessum spurningum verður í fyrsta kafla almennt fjallað um félagsslit og þær sérreglur sem um slit fjármálafyrirtækja gilda. Í öðrum kafla verður leitast við að varpa ljósi á hlutverk slitastjórna fjármálafyrirtækja með nokkuð almennum hætti. Þá verða verkefni slitastjórna annars vegar og skilanefnda hins vegar sundurgreind, auk þess sem fleiri álitaefni tengd skilanefndum verða tekin fyrir og könnuð nánar. Ennfremur verða reglur um skipun slitastjórnar og hæfi slitsatjórnarmanna rannsakaðar, auk reglna sem um ábyrgð þeirra gilda. Í þriðja kafla verður hlutverk slitastjórna kannað, eins og því er lýst í XII. kafla ffl. og sem ráða má af gþl. Þá verður í fjórða kafla hlutverk slitastjórna borið saman við hlutverk skiptastjóra við samkvæmt gþl., en ljóst er að þrátt fyrir að leitast hafi verið við að samræma þessar reglur er þar ýmislegt frábrugðið. Að lokum fer í fimmta kafla fram samanburður á reglum íslensks réttar og erlends um störf slitastjórna, eða sambærilegra aðila. Samhliða umfjöllun hvers kafla verða, eftir því sem við á, færð rök fyrir því hvar ákveðna annmarka á ákvæðum ffl. og gþl. er að finna og leitast við að setja fram tillögur að úrbótum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MA ritgerd_FINAL_fixed.pdf | 875,77 kB | Lokaður | Heildartexti |