Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/4190
Viðfangsefni þessarar ritgerðar er Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn í Haag og Rómarsamþykkt Alþjóðlega sakamáladómstólsins sem sett var honum til grundvallar og tók gildi 1. júlí 2002. Umfjöllunin fellur undir þá grein í fræðikerfi lögfræðinnar sem nefnd er alþjóðlegur refsiréttur og er undirgrein þjóðaréttar. Ritgerðin snertir einnig á efni sem á heima innan alþjóðlegrar réttarheimspeki, mannréttinda og mannúðarréttar.
Farið er almennum orðum um alþjóðlegan refsirétt og þróun hans á 20. öldinni sem leitt hefur til þess að samfélagi ríkja þótti ástæða til þess að stofnaður yrði alþjóðlegur sakamáladómstóll sem sitja skyldi til frambúðar og dæma einstaklinga til ábyrgðar vegna alþjóðaglæpa. Fjallað er um stofnun dómstólsins og þá nefndavinnu sem átti sér stað við undirbúning og samningu samþykktarinnar. Því næst er farið yfir helstu ákvæði samþykktarinnar, en sérstök áhersla er lögð á lögsögu dómstólsins og takmarkanir á henni og kannað er á hvaða grundvelli dómstóllinn beitir lögsögu sinni. Í næsta kafla er umfjöllun um hvernig starf dómstólsins hefur gengið síðan hann var stofnaður. Farið er yfir þau mál sem þegar hafa hafist hjá dómstólnum, hvaða ákvæði samþykktarinnar hafa komist til framkvæmdar, undirbúningsvinnu saksóknara í þessum málum og samstarf dómstólsins við Sameinuðu þjóðirnar og aðildarríki samþykktarinnar. Andstaða Bandaríkjanna við dómstólinn er viðfangsefni næsta kafla. Fyrst er fjallað um hvernig Bandaríkjastjórn dró undirritun sína undir samþykktina til baka eftir að hafa tekið þátt í undirbúningsvinnu við gerð hennar. Því næst um þær leiðir sem hún fór til þess að draga úr áhrifum dómstólsins, með bandarískri lagasetningu, í gegnum Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og með tvíhliða samningsgerð við önnur ríki. Að lokum um þrenns konar rök og gagnrýni sem dómstóllinn hefur hlotið af hálfu Bandaríkjanna og annarra og gagnrök veitt við þeim. Sérstök áhersla er lögð á að kanna í þjóðaréttarlegu ljósi þá gagnrýni að heimildir dómstólsins til beitingar lögsögu skerði fullveldisrétt ríkja.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
pd_fixed.pdf | 889.39 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |