Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/4195
Umfjöllunarefni ritgerðarinnar er ein af grundvallarreglum skaðabótaréttar, þ.e. reglan um vinnuveitandaábyrgð og nánar tiltekið það álitaefni, hvaða háttsemi starfsmanns, sem veldur tjóni, fellur undir regluna um vinnuveitandaábyrgð. Upphaf beitingar reglunnar um vinnuveitandaábyrgð hér á landi, má rekja til norrænna fyrirmynda og þá aðallega til reglu DL 3-19-2, sem tók gildi með samþykkt Dönskulaga Kristjáns konungs V. árið 1683. Í reglunni felst að sá sem felur öðrum umboð til að efna ákveðnar skyldur, verður skaðabótaskyldur á tjóni, vegna þeirra vanefnda sem leiðir af háttsemi umboðsmannsins við framkvæmd þess sem honum var falið að gera. Til að afmarka hvaða háttsemi starfsmanns, sem veldur tjóni, fellur undir regluna um vinnuveitandaábyrgð, var tekið til skoðunar hvaða kröfur norrænir dómstólar hafa gert um tengsl milli skaðaverks starfsmanns og framkvæmdar hans á starfi sínu eða starfsskyldum. Í þessu atriði er talin liggja ein mikilvægasta takmörkun í reglunni um vinnuveitandaábyrgð, en þetta atriði hefur í norrænum fræðiskrifum almennt verið kallað ,,derudi“ sbr. orðalagið í reglu DL 3-19-2 ,,hvad derudi forseis.“ Svo hægt væri að átta sig á þessari takmörkun reglunnar um vinnuveitandaábyrgð var nauðsynlegt að líta til þess, hvernig norrænir fræðimenn og dómstólar túlkuðu upphaflega reglu DL 3-19-2 og hvernig sú túlkun hefur þróast með árunum. Niðurstaðan sem leiddi af þeirri skoðun var að regla DL 3-19-2 var í fyrstu túlkuð þannig, að húsbóndi bar ábyrgð á tjóni vegna háttsemi undirmanns síns, ef undirmaðurinn hafði skýrt umboð frá húsbónda sínum um að inna ákveðið verk af hendi. Með tilkomu iðnbyltingarinnar í lok 18. aldar, og í kjölfar mikillar gagnrýni norænna fræðimanna á reglu DL 3-19-2 á 19. öld og í byrjun 20. aldar, tók hið efnislega inntak reglunnar um vinnuveitandaábyrgð að víkka út og farið var að túlka regluna sem almenna reglu um vinnuveitandaábyrgð og leyst undan hinni þröngu túlkun, sem hafði stuðst við notkun orðsins ,,umboð“. Þá var einnig tekið til skoðunar hvernig reglan um vinnuveitandaábyrgð hefur verið að þróast í norrænni réttarframkvæmd, allt frá lokum 19. aldar til dagsins í dag og hvaða línur hafa verið lagðar í sambandi við skýringu á framangreindum tengslum, milli skaðaverka starfsmanna og framkvæmd þeirra á starfi sínu. Niðurstaða þeirrar skoðunar leiddi í ljós, að í eldri dómaframkvæmd voru heldur strangari kröfur gerðar af dómstólum um áðurnefnd tengsl og bótaábyrgð vinnuveitanda hafnað, ef skaðaverk starfsmannins var talið falla utan starfsskyldna hans. Þróunin virðist vera sú að norrænir dómstólar slaki nú meira á þeim kröfum sem áður voru gerðar og farið er að fella ýmsa háttsemi undir ábyrgð vinnuveitanda, án þess að skýr tengsl séu milli skaðaverks starfsmannsins og framkvæmdar hans á starfi sínu. Virðist sem sanngirnissjónarmið gagnvart tjónþola stýri að nokkru leyti niðurstöðu dómstóla. Loks var tekin stuttlega til skoðunar skaðabótaábyrgð sjálfs starfsmannsins.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
ritgerdin_fixed.pdf | 755.86 kB | Lokaður | Heildartexti |