Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/42044
Við búum í hagkerfi verkefna (e. Project Economy) og verkefni gegna sífellt stærra hlutverki í rekstri skipulagsheilda (Nieto-Rodriguez, 2021). Verkefni eru notuð allt frá því að innleiða breytingar á stefnu yfir í að þróa nýja vöru og betrumbæta ferla. Samhliða aukinni áherslu á verkefnavæðingu í heimi sífellt meiri hraða hefur námsframboð í verkefnastjórnun aukist og má nú finna verkefnastjóra víða. Verkefnastjórnun er nokkuð nýleg fræðigrein og ný kynslóð sérfræðinga og stjórnenda þekkja þess vegna betur til þeirra hugtaka og skilgreininga sem notuð eru við verkefnastjórnun en stjórnendur gerðu almennt áður. Oftar en ekki eru það æðri stjórnendur með langan og farsælan feril sem ólust upp í allt öðru umhverfi en við eigum að venjast í dag sem veljast sem bakhjarlar verkefna (Lock, 2013). Þegar þessir stjórnendur luku sinni skólagöngu og hófu sinn starfsferil snerist rekstur skipulagsheilda um að hámarka hagkvæmni, auka hagnað og draga úr kostnaði. Með breyttum áherslum í rekstri skipulagsheilda undanfarin ár eru þessir stjórnendur skipaðir bakhjarlar verkefna samhliða daglegu starfi sínu, án þess að hafa til þess rétta þjálfun eða reynslu, og án þess að þekkja réttu hugtökin eða til hvers er ætlast af þeim (Ashkenas, 2015). Skiljanlega kjósa þeir að verja takmörkuðum tíma sínum í það sem þeir þekkja best og verkefnin gjalda fyrir það, enda virkur stuðningur bakhjarls mikilvægur árangri verkefna (PMI, 2014).
Lykilorð: Bakhjarl, eigandi, verkefnastjóri, verkefnastjórnun
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
2022 MPM Lokaritgerð - Hlutverk bakhjarla í verkefnum - Óskar Páll Þorgilsson.pdf | 1.45 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |