Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/4207
Í ritgerðinni er fjallað um helstu sérreglur er gilda um slitameðferð fjármálafyrirtækja er lúta stjórn skilanefnda og slitastjórna, en umrædd fjármálafyrirtæki eru Glitnir banki hf., Landsbanki Íslands hf., Kaupþing banki hf., Straumur-Burðarás fjárfestingabanki hf., Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Sparisjóðabanki Íslands hf. Í fyrsta lagi kemur fram í ritgerðinni að þau fjármálafyrirtæki sem nutu heimildar til greiðslustöðvunar við gildistöku laga nr. 44/2009, þ.e. þann 20. apríl 2009, skuli eiga rétt á framlengingu greiðslustöðvunar í allt að 24 mánuði frá því þinghaldi þegar slík heimild var upphaflega veitt. Fyrrgreind fjármálafyrirtæki, fyrir utan Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis sem óskaði ekki eftir heimild til greiðslustöðvunar, eiga því rétt á því að fá greiðslustöðvun framlengda í allt að 24 mánuði frá þeim tíma þegar heimild til greiðslustöðvunar var fyrst veitt. Í öðru lagi er greint frá því í ritgerðinni að fyrrgreindum fjármálafyrirtækjum, að frátöldum Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, skuli veitt heimild til framlengingar á greiðslustöðvun án tillits til skilyrða í 4. og 6. tölul. 2. mgr. 12. gr. gjþl. Í þriðja lagi kemur fram í ritgerðinni að sérstakar reglur gildi um frestdag í tilvikum Glitnis banka hf., Landsbanka Íslands hf. og Kaupþings banka hf. Í tilvikum þessara þriggja viðskiptabanka er frestdagur miðaður við gildistöku laga nr. 129/2008, þ.e. 14. nóvember 2008. Í fjórða lagi segir í ritgerðinni að ákvæði um skipun bráðabirgðastjórnar í lögum um fjármálafyrirtæki gildi ekki í þeim tilvikum þar sem fjármálafyrirtæki hefur fengið heimild til greiðslustöðvunar og skilanefnd hefur jafnframt verið skipuð. Bráðabirgðastjórn hefur því ekki verið skipuð í ofangreindum fjármálafyrirtækjum ef frá er talinn Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis. Í fimmta lagi er greint frá því í ritgerðinni að ákvæði um upphaf slitameðferðar í lögum um fjármálafyrirtæki gildi ekki um þau fjármálafyrirtæki sem fengið hafa heimild til greiðslustöðvunar, þ.e. öll ofangreind fjármálafyrirtæki fyrir utan Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Umrædd fjármálafyrirtæki verða sjálfkrafa tekin til slitameðferðar án sérstaks dómsúrskurðar þegar heimild þeirra til greiðslustöðvunar fellur niður. Í sjötta lagi kemur fram í ritgerðinni að skilanefndir ofangreindra fjármálafyrirtækja annist ýmsa rekstrarlega þætti slitameðferðar fyrirtækjanna og séu ábyrgar fyrir daglegum rekstri þeirra. Skilanefndirnar, sem eru einkaréttarlegs eðlis, starfa í samráði við þann aðila sem skipaður hefur verið aðstoðarmaður við greiðslustöðvun. Fjármálaeftirlitið skipaði skilanefndir í öll ofangreind fjármálafyrirtæki í október 2008 og mars 2009, en í kjölfar gildistöku laga nr. 44/2009 var skipuð bráðabirgðastjórn í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, sbr. ofangreint. Í sjöunda lagi segir í ritgerðinni að slitastjórnir ofangreindra fjármálafyrirtækja skuli annast þá þætti slitameðferðarinnar sem skilanefndum fyrirtækjanna eru ekki sérstaklega faldir. Jafnframt segir í kaflanum að sá aðili sem skipaður hefur verið aðstoðaðurmaður við greiðslustöðvun skuli sjálfkrafa taka sæti í slitastjórn. Í áttunda lagi er greint frá því í ritgerðinni að ofangreind fjármálafyrirtæki, fyrir utan Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, njóti heimildar til greiðslustöðvunar á sama tíma og slitameðferð þeirra fer fram. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að úrræðin tvö fara ekki saman ef tekið er mið af markmiðum þeirra annars vegar og þeim réttaráhrifum sem þau hafa í för með sér hins vegar. Í níunda lagi kemur fram í ritgerðinni að frestur til að höfða riftunarmál gegn fjármálafyrirtæki sé 24 mánuðir í stað hefðbundins sex mánaða frests sem kveðið er á um í lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. Rétt er þó að hafa í huga að umrædd regla gildir um öll fjármálafyrirtæki og er því ekki einskorðuð við þau sex fyrirtæki sem talin eru upp hér að ofan.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Ritgerd_OPO_fixed.pdf | 983.84 kB | Lokaður | Heildartexti |