Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/42139
Þær breytingar sem orðið hafa á gerð plötuumslaga í gegnum tíðina eru fyrst og fremst til komnar vegna tækninýjunga og nýrra miðla. Hið hefðbundna plötuumslag, sem er umbúðir utan um vínylplötu eða geisladisk til að verja gegn hnjaski, er með mynd að framan og heiti laganna að aftan. Hið eiginlega hlutverk plötuumslagsins hefur minnkað sem og flötur þess, en framleiðsla á annars konar sjónrænu efni hefur að sama skapi aukist. Í dag er plötuumslag lítil rafræn táknmynd af plötunni á streymisveitum.
Fyrsta grafíska plötuumslagið árið 1939 vakti mikla athygli og síðan þá eru plötuumslög alltaf myndskreytt. Plötuumslögum er annað hvort ætlað að vera tilvísun í tónlistina og vekja sambærileg hughrif og hún, eða þeim er ætlað að ná til fleiri hlustenda, þá gjarnan með myndrænni áherslu á listamanninn sjálfan. Þróun á miðlun tónlistar síðustu ár í gegnum netið hefur dregið úr vægi stakrar myndar sem birtist sem táknmynd plötunnar. Í staðinn hafa nýir miðlar gert tónlistamönnum kleift að gefa frá sér meira og fjölbreyttara sjónrænt efni til hlustenda sinna, til dæmis í formi stuttra myndbanda sem hægt er að dreifa í gegnum samfélagsmiðla. Annað sjónrænt efni hefur komið til sögu eftir því sem að tæknin hefur þróast og getur miðlað tónlistinni á enn fjölbreyttari hátt en áður, eins og til dæmis tónlistarmyndbönd, bakgrunnsefni á tónleikum, hreyfðar myndaklippur og sýndarheimur.
Traust milli hönnuðar og tónlistarmanns er lykilatriði þegar kemur að því að myndgera tónlist. Á Íslandi hefur Björk verið leiðandi í hönnun á tónlistartengdu myndefni, en aðrar hljómsveitir hafa lagt vinnu í frumlega hönnun í tengslum við útgáfu á nýju efni eins og t.d. hljómsveitin Hjaltalín.
Aukinn aðgengileiki á tónlist gerir það að verkum að tónlist og neysla hennar er orðin meira í bakgrunni lífs okkar en áður. Tilvera hefðbundinna plötuumslaga sem hægt er að handfjatla og snerta er þó langt frá því lokið. Enn eru listamenn að gefa út vínylplötur samhliða rafrænum útgáfum. Þær eru grunnurinn að því myndmáli sem hönnuðir dagsins í dag takast á við í samstarfi sínu við tónlistarmenn nútíðar og framtíðar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Jakob Hermannsson.pdf | 809.86 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |