Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/42145
Talað er um að byggingar og hús hafi sál eða áru. Hvað er sál? Hvernig getur bygging öðlast sál? Hvernig skynjum við og upplifum við okkur í rými sem hefur sál eða áru? Í þessari ritgerð reyni ég að svara þessum spurningum. Algengt er að sjónin sé það skynfæri sem tekið er hvað mest mið af við hönnun bygginga, upplifun og umræðu í arkitektúr. Í ritgerðinni mun ég skoða hvernig sjónin hefur verið miðlægt skynfæri í arkitektúr. Ég mun einnig fjalla um það hvernig við getum notað hin skynfærin, lykt, snertingu, heyrn, bragð og líkama til þess að upplifa rými. Skoðaðar eru kenningar arkitekta og fræðimanna á þessu sviði. Ég nýti mér kenningar úr fyrirbærafræði til að greina samband mannlegrar vitundar við heiminn og upplifun okkar af rýmum, þá sérstaklega hvernig sú upplifun markast af eigin reynslu, þekkingu og minningum.
Öll þekkjum við þá tilfinningu að ganga inn í rými og finna kunnuglega lykt eða hljóð sem minnir okkur á fyrri tíma. Minningar geta haft áhrif á rýmisupplifun. Minningar fyrri íbúa og gesta, tilfinningar þeirra og upplifanir verða eftir í byggingum og með tímanum getum við snert söguna, séð hana og heyrt. Náttúruleg efni eins og viður og steinn geyma söguna betur en nýrri efni manngerð efni. Rýmin eiga við okkur samtal, við gefum þeim hluta af sál okkar og þau gefa okkur sína til baka. Þau verða sitt eigið sjálf.
Staðarandi er breytilegur eftir stemmingu og hann er hægt að skapa og byggja. Hins vegar verður sál og ára í byggingum til með tímanum, með efnisleika, sögu og minningum. Sál byggingar er einstök. Hún hefur áhrif á upplifun okkar og eykur um leið við fagurfræði arkitektúrsins.
| Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
|---|---|---|---|---|---|
| Lydía Hrönn Kristjánsdóttir.pdf | 353,47 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |