Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/42820
Í þessari ritgerð var fjallað um tónlist í þýskukennslu og námsefni samið við fjögur þýsk lög. Farið var yfir samband tónlistar og tungumáls í heilastarfssemi, sem leiddi í ljós tengsl milli þessara tveggja fyrirbæra, þrátt fyrir að heyra hvort undir sinn hluta heilans. Einnig voru skoðaðar rannsóknir sem studdu það að tónlist væri hjálpleg í tungumálanámi. Til að ná sem bestum árangri, er best að nota einföld, svokölluð strófísk lög, þar sem hvert erindi fylgir sömu laglínu. Best er að nota texta sem saminn hefur verið við ákveðna laglínu eða öfugt. Í kennslu er mikilvægt að endurtaka lagið sem oftast.
Við samningu námsefnisins var farið eftir forskrift prófessors Mohamed Esa, sem reyndist afar gagnlegt. Þar var lögð áhersla á lagavali út frá ýmsum þáttum, m.a. að lögin féllu að smekk kennara og markhóps og að sungið væri á réttri þýsku. Síðan var rýnt í ýmsa þætti lagsins, orðalisti útbúinn og út frá þessum þáttum var námsefnið svo samið.
Þegar námsefni er samið, þarf að huga að ýmsum þáttum, t.d. að það falli að námskrá. Þegar það er tilbúið þarf að koma til utanaðkomandi mat, t.d. frá kennurum, nemendum eða öðru skólafólki. Að lokum þarf að prufukeyra það. Allra þessara atriða var gætt þegar þetta námsefni var samið. Námsefnið var kennt í Breiðholtsskóla á vormánuðum 2022 af Ólafíu Línberg Jensdóttur. Höfundur fylgdist með kennslu og punktaði hjá sér það sem var gott eða hefði mátt betur fara. Að þessu loknu var námsefnið borið undir tvo reynda þýskukennara, önnur kennir við framhaldsskóla en hin kennir þýsku sem valfag við grunnskóla. Með tilliti til þessara athugasemda, sem og kennslunnar, voru hlutar námsefnisins endurbættir.
Það er ljóst að tónlist er góð kennsluaðferð sem byggir á vísindalegum grunni og margt hægt að kenna í gegnum hana. Að búa til samræmt námsefni, eingöngu byggt á tónlist, er þó tæplega raunhæfur eða æskilegur kostur. Hins vegar hentar hún vel til að kenna þýsku sem valfag á grunnskólastigi, því slíku námskeiði er fyrst og fremst ætlað að gefa innsýn inn í þýska tungu og þýskt samfélag.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MA-lok.pdf | 2,04 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
skil2.pdf | 183,49 kB | Lokaður | Yfirlýsing |