Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/42823
Markmið rannsóknarinnar er að kanna viðhorf eldri íbúa til þjónustu Kópavogsbæjar. Ritgerðin byggir á rannsókn sem unnin var meðal eldri íbúa sem fá innlitsþjónustu hjá velferðarsviði Kópavogs þar sem viðhorf þeirra til þjónustu Kópavogsbæjar og þörf fyrir frekari þjónustu voru könnuð. Notast var við megindlega rannsóknaraðferð og var gagna aflað með símakönnun. Hringt var í íbúa sem fengu innlitsþjónustu í mars 2022. Svörunin var 75%. Spurt var um líðan og viðhorf til þjónustu hjá Kópavogsbæ ásamt þörf fyrir aukna þjónustu.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að eldri íbúar sem fá innlitsþjónustu eru almennt ánægðir með þjónustu Kópavogsbæjar. Niðurstöður rannsóknarinnar samræmast að miklu leyti niðurstöðum annarra rannsókna á þessu sviði. Yfirgnæfandi meirihluti notenda sem fá innlit eru konur og er helmingur þeirra 85 ára eða eldri. Flestir búa í eigin húsnæði og með tilliti til hjúskaparstöðu eru ekkjur stærsti hópur þeirra sem fá innlit. Karlmenn eru hlutfallslega flestir í þeim hópi sem fær þjónustu nokkrum sinnum í viku eða daglega. Allir íbúar sem fá innlitsþjónustu telja sig hafa þörf fyrir þessa þjónustu. Fjórðungur íbúa sem fær innlit telur sig ekki fá næga þjónustu. Aðstandendur, í flestum tilfellum dætur, hjálpa og aðstoða mest í daglegu lífi að mati íbúa sem fá innlit. Meirihluti telur lífsgæði sín góð, hlutfallslega flestir í aldursflokknum 85 ára eða eldri. Eldri íbúar kjósa að búa sjálfstætt í eigin húsnæði og eru þeir sáttir við búsetuhagi sína og telja sig búa við öryggi. Stór hluti þeirra sem býr við þjónustukjarna sækir þjónustu þangað. Þörf fyrir frekari þjónustu er greinilega til staðar hjá ákveðnum hópi íbúa og fer að öllum líkindum vaxandi hjá ört stækkandi hópi eldra fólks á næstu árum og áratugum. Það er mikilvægt að hugað sé að öllum þáttum og gæðum samþættrar og samfelldrar þjónustu til eldra fólks með frekari rannsóknum á þessu sviði.
Lykilorð: Eldra fólk, þjónusta, Kópavogsbær, lög.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MA ritgerð í félagsráðgjöf október 2022.pdf | 1,18 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing um meðferð lokaverkefnis - Herdís BjörnsdóttirMA.pdf | 61,6 kB | Lokaður | Yfirlýsing |