Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/42913
Stærðfræði spilar stóran þátt í skólagöngu barna og því mikilvægt að námsmat beri kennsl á þá nemendur sem standa illa við upphaf grunnskóla. Talnalykill er staðlað stærðfræðikunnáttupróf fyrir fyrstu sjö bekki grunnskóla sem gefið var út árið 1998, en þegar til lengri tíma er litið er úrelding prófatriða að einhverju marki óumflýjanleg. Tvær rannsóknir voru framkvæmdar en í báðum voru notuð 17 valin atriði úr prófþættinum Tölum. Markmið fyrri rannsóknar var að meta núverandi notagildi atriða til skimunar fyrir slakri færni í 1. bekk en til þess var úrtak 172 nemenda notað; fyrirlögn 101 nemanda vorið 2015 og 71 nemanda vorið 2020. Markmið seinni rannsóknar var að kanna hvort breytingar hefðu orðið á virkni atriða frá útgáfu prófsins. Núverandi virkni var fengin með sömu gögnum og í fyrri grein og þau borin saman við upphaflega virkni í úrtaki 1.953 nemenda fengið út tveimur fyrirlögnum; 1.339 nemenda haustið 1996 og 614 haustið 1999. Athugun á núverandi virkni atriða gaf góðar niðurstöður: Prófatriði meta nemendur með færni á víðu bili, þau greina slaka nemendur frá miðlungsgóðum og henta því til skimunar í 1. bekk. Heildaráreiðanleiki reyndist einnig góður þar sem atriðin veittu áreiðanlegar upplýsingar um slaka og meðalgóða nemendur og eru því gagnleg við að greina nemendur með lága færni frá þeim sem standa í meðallagi. Niðurstöður seinni rannsóknar sýndu að mestu óbreytta virkni prófatriða frá útgáfu prófsins; munur fannst á virkni sex atriða; flest höfðu þó hverfandi áhrif á prófniðurstöður en eitt sýndi miðlungsáhrif. Samanlögð áhrif breyttrar virkni voru mest hjá allra slökustu nemendum sem fengu örlítið lægri heildarniðurstöðu (< 1 stig) við núverandi virkni heldur en börn með sömu færni fengu á árabilinu 1996 – 1999. Þegar á heildina er litið benda niðurstöður beggja rannsókna til þess að núverandi notagildi prófatriða sé töluvert og sé að auki nærri óskert frá útgáfu prófsins þar sem þau greina enn vel á milli nemenda með ólík færnisstig.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MS_KatrínArndís.pdf | 348,65 kB | Lokaður til...04.10.2027 | Heildartexti | ||
Skemman_yfirlysing.pdf | 265,3 kB | Lokaður | Yfirlýsing |