Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/43046
Lágþröskuldaþjónusta er frekar nýtt hugtak í íslensku, en slík úrræði hafa verið til í mörg ár hér á landi, í mismunandi formi. Síðasta áratug hafa mörg lágþröskuldaúrræði sprottið upp hér á landi. Fáar rannsóknir eru til um einkenni og árangur slíkrar þjónustu og hefur ekki verið skoðað hvað einkennir lágþröskuldaþjónustu hér á landi og því er nauðsynlegt að rannsaka og auka þekkingu á þessum málum á meðal fagaðila og almennings.
Markmið rannsóknarinnar er að skoða hugtakið lágþröskuldaúrræði á Íslandi. Annars vegar með því að bera saman ólíkar þjónustur hér á landi sem skilgreina sig sem lágþröskuldaúrræði, hvað einkennir slíka þjónustu og hver árangur hennar er. Hins vegar með því að heyra frá félagsráðgjöfum sem starfa í þessum úrræðum, til að fá þeirra sýn á hvað einkennir slíka þjónustu, árangur og mikilvægi slíkrar þjónustu hér á landi. Í þeim þætti rannsóknarinnar notaðist rannsakandi við eigindlega rannsóknaraðferð, þar sem hann tók hálfstöðluð viðtöl við þrjá starfandi félagsráðgjafa í lágþröskuldaúrræðum. Skoðað var hvað einkennir lágþröskuldaúrræði. Farið var yfir kosti og galla lágþröskuldaúrræðis, hvað er hægt að gera til að bæta úrræðin á Íslandi og farið var yfir árangur sem hægt er að sjá af lágþröskuldaúrræðum.
Niðurstöðurnar benda til að ákveðin lykilatriði einkenna lágþröskuldaþjónustu á Íslandi en það er frí þjónusta, auðvelt aðgengi og fagmenntað starfsfólk. Viðmælendurnir í rannsókninni töldu vera mikinn árangur af lágþröskuldaþjónustu. Þeir sjá bætta líðan skjólstæðinga auk þess að sumir skjólstæðingar fá hjálp sem þeir ættu annars ekki kost á t.d. vegna biðlista, efnahags eða þeir passa ekki í önnur kerfi. Mikil og aukin aðsókn er í þjónustuna sem bendir til mikillar þarfar í samfélaginu.
Rannsóknina er hægt að nota til að fá betri innsýn í lágþröskuldaþjónustu og nýta þær hugmyndir sem þátttakendur hafa um slíka þjónustu, t.d. þegar stofnuð eru ný úrræði. Ekki er hægt að alhæfa út frá niðurstöðum þar sem úrtakið er lítið en niðurstöður gefa innsýn í starf félagsráðgjafa sem starfa í lágþröskuldaúrræðum. Þörf er á frekari rannsóknum á þessu sviði til að auka enn frekar þekkingu almennings og fagfólks á lágþröskuldaþjónustu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MA ritgerð - Birgir E. PDF.pdf | 795,28 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman_yfirlysing .pdf | 209,47 kB | Lokaður | Yfirlýsing |