Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/43085
Bakgrunnur: Umönnun sjúklinga með barkaraufartúbu felur í sér daglega umhirðu og eftirlit til að tryggja öryggi og efla öryggiskennd sjúklingsins. Heilbrigðisstarfsfólk sem annast sjúklinga með barkaraufartúbu þarf að búa yfir víðtækri þekkingu sem m.a. snýr að því hvernig eigi að fyrirbyggja fylgikvilla og bregðast við ef upp koma vandamál. Meðferðarknippi sem sett eru fram á hnitmiðaðan hátt líkt og gátlistar er eitt stuðningsform sem hægt að nýta til að styðja við starfsfólk og tryggja að nauðsynlegir þættir séu framkvæmdir við eftirlit og meðferð. Mikil gagnsemi er í því útbúa og innleiða slík meðferðarknippi fyrir sjúklinga með barkaraufartúbu á heila- og taugaskurðdeild B-6 á Landspítala.
Tilgangur: Verkefnið er tvíþætt: (a) Að þróa meðferðarknippi fyrir umönnun og eftirlit heila- og taugaskurðsjúklinga með barkaraufartúbu. (b) Að kanna viðhorf þverfaglegs hóps á Landspítala til meðferðarknippanna og leita eftir tillögum til frekari þróunar á þeim.
Aðferð: (a) Við þróun meðferðarknippanna var sjö meginþrepum Borgets fylgt við að bera kennsl á þekkingu, útbúa fræðsluefni og aðlaga tilmæli að íslenskum aðstæðum. (b) Delphi-rannsókn í tveimur umferðum var framkvæmd þar sem leitað var eftir tillögum og samhljóma áliti þverfaglegs hóps starfsmanna. Eftir hvora Delphi-umferð voru meðferðarknippin betrumbætt. Þátttakendur (n=24 í umferð 1 og n=21 í umferð 2) var sá markhópur sem kemur til með að nota meðferðarknippin og sérfræðingar Landspítalans sem búa yfir sérþekkingu á umönnun sjúklinga með barkaraufartúbu. Til að auka réttmæti Delphi rannsóknarinnar var stuðst við CREDES (Conducting and REporting of DElphi Studies).
Niðurstöður: a) Þrjú meðferðarknippi voru þróuð: 1) Eftirlit og öryggi sjúklinga með barkaraufartúbu. 2) Dagleg umönnun sjúklinga með barkaraufartúbu. 3) Að venja heila- og taugaskurðsjúklinga af barkaraufartúbu. Einnig voru útbúin drög að uppflettiriti sem er sett fram sem fræðilegur bakgrunnur meðferðarknippanna. Ritið ber heitið „Tilmæli um verklag tengt meðferð sjúklinga með barkaraufartúbu.“ (b) Viðhorf starfsfólks til meðferðarknippanna voru jákvæð og þau álitin nothæf til að auka öryggi sjúklinga og starfsmanna. Ýmsar áskoranir eru í umönnun og eftirliti sjúklinga með barkaraufartúbu sem gefa þarf frekari gaum og ljóst er byggja þarf margþættan stuðning í kringum starfsfólk. Meðferðarknippin þróuðust áfram út frá ábendingum þátttakanda í Delphi-rannsókninni og eru nú tilbúin til innleiðingar.
Ályktanir: Mikilvægt er að umönnun sjúklinga með barkaraufartúbu sé byggð á gagnreyndri þekkingu og þverfaglegri nálgun. Nauðsynlegt er að vanda vel við innleiðingarferli meðferðarknippanna til að aðlaga þau inn í menningu deildar. Einnig þarf að skoða hvort innleiðing meðferðarknippanna skili sér í betri útkomu sjúklinga með barkaraufartúbu á heila- og taugaskurðdeild Landspítala. Vonir standa síðan til þess að afrakstur verkefnisins skili sér víðar á Landspítala og stuðli að frekari þverfaglegri samvinnu við umönnun sjúklinga með barkaraufartúbu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaverkefni 4. jan docx.pdf | 5.88 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Adobe%20Scan%2004.%20jan.%202023.pdf | 216.5 kB | Lokaður | Yfirlýsing |