Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/43142
Konur í Konukoti, neyðarskýli kvenna við Eskihlíð, er lítt rannsakaður hópur en hefur verið í deiglunni ásamt öðrum þeim sem glíma við heimilisleysi. Markmiðið er að vekja athygli á félagslegu misrétti sem hópurinn verður fyrir og draga þannig úr jaðarsetningu hans. Niðurstöður rannsóknar eru settar í samhengi við kenningar sem byggja á samtvinnun mismunabreyta og greininga á kynjakerfinu, ekki síst með tilliti til ofbeldis sem þrífst innan þess. Hér er lagt upp með rannsóknarspurningar sem lúta að bakgrunni kvennanna, Konukoti sjálfu, bæði húsnæðinu og þjónustunni, reynslu kvenna af Konukoti, hvernig lífsbaráttu og samfélagi þeirra er háttað og hvort munur sé á neyðarskýlum fyrir konur og karla. Rannsóknin er eigindleg og byggir á átta hálfstöðluðum viðtölum við konur í Konukoti og fimm viðtölum við forstöðumanneskjur og rekstraraðila í málaflokki heimilislausra. Auk þess er byggt á fjórum vettvangsheimsóknum í neyðarskýli og dagsetur fyrir heimilislaust fólk. Gögn eru greind með aðferðum grundaðrar kenningar.
Niðurstöður leiða í ljós að konur sem glíma við heimilisleysi eiga margháttaða ofbeldis- og áfallasögu og glíma við skaðlegan heilsufarsvanda. Uppeldisaðstæður hafa einkennst af alvarlegri vanrækslu forráðamanna og sinnuleysi samfélagsins gagnvart aðstæðum þeirra og kjörum. Þær hafa allar orðið fyrir kynferðisofbeldi, þær eru berskjaldaðar fyrir enn meira ofbeldi í daglegri lífsbaráttu og auk heimilisleysis glíma þær við fíkn, andlegar áskoranir, líkamleg veikindi og útilokun frá fjölskyldu. Þjónusta við þær er ekki í samræmi við ofbeldis- og áfallasögu þeirra og Konukot er í óviðunandi húsnæði. Hugmyndafræði skaðaminnkunar og áfalla- og kynjamiðuð nálgun er við hæfi og í Konukoti upplifa konur að þeim sé mætt á þeim stað sem þær eru. Hins vegar hamlar húsnæðið og aðstaðan í Konukoti því að hægt sé að vinna eftir hugmyndafræði og nálgun sem lagt er upp með.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Skemman_yfirlysing_KK.pdf | 302.02 kB | Lokaður | Yfirlýsing | ||
KolbrunKolbeinsdottir_MAritgerd_feb23.pdf | 1.06 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |