Please use this identifier to cite or link to this item: http://hdl.handle.net/1946/43179
Geðheilbrigðismál hafa verið talsvert til umræðu á Íslandi síðustu misseri. Aukin vitundarvakning gagnvart geðheilbrigði hefur leitt til þess að almenningur hefur öðlast meiri skilning á mikilvægi góðrar geðheilsu en samtök eins og Geðhjálp hafa verið leiðandi afl í geðheilbrigðismálum og lagt áherslu á að rækta geðheilsu Íslendinga. En jafnvel þó umræðan um geðheilbrigðismál hafi verið opnari á undanförnum árum og meiri fræðsla og forvarnarstarf hafi verið til staðar, þá eru geðsjúkdómar ekki eins viðurkenndir og aðrir sjúkdómar. Víðsvegar má finna fólk sem smánar slíka sjúkdóma, þar sem það dregur fram ákveðnar hugmyndir eða ályktanir um fólk með geðsjúkdóma út frá staðalímyndum en slíkar hugmyndir geta leitt til fordóma og mismununar. Til að draga úr smánun hefur markaðsfólk meðal annars nýtt sér samfélagsmiðaða markaðsfærslu með það að markmiði að breyta eða hafa áhrif á hegðun þeirra sem smána geðsjúkdóma. Mikilvægur hluti samfélagsmiðaðrar markaðsfærslu er að skipta markaðnum niður í smærri og samstæðari hópa til að öðlast dýpri skilning á þeim hópum sem leitað er eftir að breyta hegðun hjá. Að hluta markaðinn niður auðveldar markaðsfólki að koma markvissari skilaboðum áfram til þeirra sem eru móttækilegir fyrir þeim, en mikilvægt er að skilaboðin séu sérsniðin að hverjum hóp fyrir sig.
Markmið rannsóknarinnar var að hluta niður markaðinn eftir því hvernig hann lítur á einstaklinga með alvarlega geðsjúkdóma og þar með búa til skýran markhóp sem hægt er að miða á til að draga úr smánun. Könnun sem innihélt tvo mælikvarða var lögð fram á rafrænu formi. Fyrri kvarðinn mældi viðhorf almennings til alvarlegra geðsjúkdóma og seinni mælikvarðinn, VIA-IS-V6, lagði mat á dygðir þátttakenda. Alls tóku 597 þátt í könnuninni að stórum hluta eða í heild.
Niðurstöður rannsókarinnar leiddu í ljós þrjá hópa með mismunandi viðhorf til alvarlegra geðsjúkdóma. Hópur 1 hallaðist að þeim viðhorfum að fólk með alvarlega geðsjúkdóma sé hættulegt, ofbeldisfullt og jafnvel ógn við samfélagið. Almennt séð hefur þessi hópur samúð gagnvart fólki með alvarlega geðsjúkdóma og vill jafnframt að þeim sé ekki mismunað af samfélaginu. Hópur 2 hallaðist að þeim viðhorfum að fólk með alvarlega geðsjúkdóma ætti erfitt með að vera hluti af samfélaginu eins og að fá sömu laun og aðrir fyrir sama starf. Það var fremur meira tilbúið til að sýna fólki með geðsjúkdóma umhyggju og góðvild og vill síður að því sé mismunað af samfélaginu. Hópur 3 hallaðist einnig að þeim viðhorfum að fólk með alvarlega geðsjúkdóma ætti erfitt með að vera hluti af samfélaginu eins og að fá sömu laun og aðrir fyrir sama starf. Almennt séð finnst þeim að fólk með alvarlega geðsjúkdóma eigi að njóta sömu réttinda og aðrir í samfélaginu og ekki eigi að mismuna þeim á grundvelli veikinda þeirra. Hópur þrjú var sá hópur sem höfundur valdi til að miða á en nánari útskýringu má finna á eftir í niðurstöðukaflanum.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
MSc_Lokaskil.pdf | 767 kB | Open | Complete Text | View/Open | |
Yfirlýsing_Skemman.pdf | 257.5 kB | Locked | Declaration of Access |