Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/43261
Muskóttur (glóbrúnn) er fágætur brúnleitur litur sem finnst í íslenska hrossakyninu. Erfðafræðilegur bakgrunnur litarins er ekki fullþekktur en líklegt er að hann komi fram vegna áhrifa nokkurra erfðasæta á brúnan grunnlit sem er arfblendinn fyrir leirlit. Eitt þeirra erfðasæta sem líklegt er að hafi áhrif er E-sæti, þar sem að genið MC1R stýrir litarefnamyndun ýmist í átt að svörtu eða brúnu eumelanín eða rauðu, gulu eða appelsínugulu feómelanín. Tvær meginsamsætur finnast í E-sæti í hrossum. Önnur þeirra er villigerðin E+ sem er ríkjandi og eykur myndun eumelaníns, hin er samsætan Ee sem er víkjandi og raskar virkni MC1R gensins svo að feómelanín er myndað. Í E-sæti geta hross með brúnan grunnlit ýmist haft arfgerð E+E+ eða E+Ee en almennt er ekki hægt að greina hvora arfgerðina þau bera útfrá lit þeirra. Arfgerð í E-sæti hefur þó áhrif á lit þar sem að tíðni E+E+ arfgerðar hefur reynst hærri í dökkum blæbrigðum brúns grunnlitar og lítilsháttar hvít mynstur eru umfangsmeiri í brúnum hrossum með arfgerð E+Ee.
Markmið þessarar rannsóknar var að greina hvort að arfgerð í E-sæti geti haft áhrif á það hvort brúnt hross sem er arfblendið um leirlit verði brúnt eða muskótt að lit. Erfðasýnum var safnað úr 48 brúnum, skolbrúnum og muskóttum íslenskum hrossum sem talin voru bera leirlit. Genin MC1R, ASIP og MATP voru arfgerðargreind og tengsl arfgerðar í E-sæti við litasvipgerð hrossana athuguð með tölfræðigreiningu.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að ekki séu tengsl á milli arfgerðar í E-sæti og muskótts litar í íslenskum hrossum og að áhrif frá öðrum erfðasætum í samspili við arfblendni fyrir leirlit valdi því að muskóttur litur komi fram.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
2022 BS lokav_HeraSólHafsteinsdóttir.pdf | 5,69 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |