Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/43344
Í miðlun mannsins á boðskap hins veraldlega og andlega valds ¬— t.d. í gegnum trúarbrögð, þjóðsögur, skáldskap og ljóðlist — eru ýmis tákn og mótíf sem koma upp aftur og aftur. Guðinn sem skapaði heiminn, djöfullinn sem færir ólukku og hetjan sem sigrast á hinu illa; svo eitthvað sé nefnt. Slík tákn og mótíf er að finna í öllum samfélögum frá upphafi og er töluvert samræmi í sjónrænni túlkun þeirra þvert á tíma og stað. Það bendir til þess að manneskjan kunni að hafa einskonar innbyggða og ómeðvitaða tilhneigingu til að túlka ákveðna hluti á ákveðinn hátt, óháð persónulegri upplifun einstaklingsins. Þessi ritgerð mun rannsaka sjónrænar birtingarmyndir þessa fyrirbæris til þess að reyna að öðlast betri skilning á því. Stuðst verður við hugmyndir sálfræðingsins Carls G. Jungs, sem tileinkaði miklum hluta ævi sinnar rannsóknum á þessu fyrirbæri og kallaði það erkitýpur. Samhliða munum við nýta okkur rannsóknir úr öðrum greinum vísinda, t.d. úr lífeðlisfræði og þróunarkenninguna, til að kanna hvort efnislegar mælingar styðji eða felli kenningu Jungs um arfgenga sameiginlega undirmeðvitund mannsins. Í gegnum ritgerðina komum við til með að sjá að marga eiginleika í sjónrænni túlkun erkitýpanna mætti hugsanlega rekja til líffræðilegrar þróunar og samfélagslegrar skilyrðingar mannsins. Hins vegar sjáum við einnig að efnislegar mælingar á hughrifunum sem erkitýpurnar valda geta ómögulega útskýrt innri andlega upplifun mannsins á þessum viðfangsefnum. Með öðrum orðum geta efnislegar mælingar aðeins útskýrt af hverju og hvernig, á efnislegan hátt. Niðurstaðan hér er að engin ein fræðigrein getur dregið upp heildarmynd af erkitýpunum en ef til vill væri það hægt með þverfaglegri nálgun ólíkra fræðigreina og viðhorfa.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Guðni Þór Ólafsson_Grafískar Birtingarmyndir Erkitýpa.pdf | 1.22 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |